Náttúran spannar vítt og er söm við sig. Við getum skoðað mynd af veirunni sem veldur Covid-19 á alnetinu um leið og loftmynd af 25 km langri Lakagígaröðinni sem skilaði nærri 15 milljörðum rúmmetra af hrauni upp á yfirborð jarðar. Veiran er um einn þúsundasti úr millimetra á breidd. Áhrif veirunnar og eldgossins á okkur mennina má flokka undir afleiðingar náttúruvár sem ekki tókst að koma í veg fyrir. Við getum að hluta stjórnað því hvernig veiran kemur við samfélagið hér á landi. Eldsumbrot nærri byggð á borð við Skaftárelda myndu ganga yfir sem slík án gagnaðgerða af okkar hálfu, nema hvað unnt er að verjast heilsufarslegum áhrifum eldgosa þeirrar gerðar að verulegu leyti. Hvað sem muninum líður er ljóst að hérlendis verður ávallt að vera sem bestur viðbúnaður við mikilli vá, misstaðbundinni og misalvarlegri. Viðbrögð við langtíma áhrifum veirufaraldurs eða gríðarmikils hraungoss á efnahag ólíkra samfélagshópa og líðan fólks eru svo meðal annars háð samspili sérfræðinga á mörgum sviðum og ríkisstjórnar, sveitarstjórna og kjörinna fulltrúa. Líka almennings og fyrirtækja, stöðu og þróun í öðrum ríkjum heims.
Á þetta er minnst vegna neyðarástands- eða vástjórnunar sem er skylda samfélagsins þegar svo háttar til. Líkt og viðbrögð eftir að váin er öll eða að mestu úr sögunni, felst ástandsstjórnun oftast, á meðan vá er fyrir dyrum, í endurtekinni greiningu á stöðunni og vísindalega styrktum ákvörðunum ríkisstjórnar, einstakra ráðherra eða sveitarstjórna. Stjórnunin verður að styðjast við víðtæka samstöðu í samfélaginu og traust fólks á þekkingu þeirra sem best vita í einni eða fleiri vísindagreinum. Ákvarðanir til langs tíma eru sjaldnast kleifar, einkum ef þekkingu skortir, t.d. á veiru, eða ef illmögulegt er að spá um framvindu öflugs eldgoss. Símat á aðgerðum, endurmat og aðlögun að breytingum í framvindunni eru meðal lykilatriða. Í fyrirrúmi er velferðin hverju sinni og sú samfélagsskylda að lágmarka alls kyns vanda og aðstoða sem flesta eftir getu sameiginlegra sjóða með endurreisn að markmiði.
Í Covid-19 faraldrinum hefur tekist vel til þegar á heildina er litið, með þeim annmörkum þó að á rúmum mánuði hefur ekki tekist að gera nógu vel við alla sem þess þurfa. Svo flókin er staða ólíkra hópa fólks og mismunandi fyrirtækja. Samtímis er unnið að því að koma alls konar starfsemi af stað á ný eða auka við starfsemi sem ekki hefur lagst niður. Horfum til annarrar, mikillar vár en þeirrar sem við glímum við nú og spyrjum okkur: Myndum við beita öðrum meginaðferðum við vástjórnunina?
Ari Trausti Guðmundsson, alþingismaður.