Fyrstu áfangaskýrslur tveggja stýrihópa, sem ég skipaði í nóvember 2020 til að vakta óbein áhrif Covid-19 eru nú komnar út. Stýrihópunum var ætlað að kanna annars vegar áhrif á lýðheilsu og hins vegar á geðheilsu landsmanna. Vinna hópanna gerir að verkum að hægt er að byggja viðbrögð á bestu mögulegu þekkingu á aðstæðum hverju sinni.
Í fyrstu áfangaskýrslu stýr ihópsins sem fjallaði um lýðheilsuáhrif voru greindir 18 lýðheilsuvísar fyrir 18 ára og eldri. Þegar hópurinn er skoðaður má sjá að það fækkar töluvert í hópi þeirra sem glíma við fjárhagserfiðleika og sömuleiðis dregur úr ölvunardrykkju. Hins vegar minnkaði neysla ávaxta, grænmetis og sykurlausra gosdrykkja og þeim fækkaði sem nýttu virka ferðamáta til og frá vinnu/skóla. Þá fækkaði þeim sem telja sig mjög hamingjusama.
Í fyrstu áfangaskýrslu stýrihópsins um geðheilsu var athyglinni beint að stöðu barna og ungmenna. Almennt séð virðist flestum börnum á grunnskólaaldri á Íslandi hafa farnast vel og áherslur stjórnvalda um að hlífa börnum eins mikið og hægt var virðast hafa skilað árangri og varið geðheilbrigði barna og ungmenna. Faraldurinn virðist hins vegar hafa haft neikvæð áhrif á líðan framhaldsskólanema sem voru nánast alfarið í fjarnámi frá vori til ársloka 2020.
Ég hef lagt mikla áherslu á eflingu geðheilbrigðisþjónustu á kjörtímabilinu. Fjárframlög til geðheilbrigðismála hafa hækkað um rúman milljarð á kjörtímabilinu en mest er hækkunin innan heilsugæslunnar, þar sem hækkunin nam rúmlega 800 milljónum króna. Sú fjárveiting hefur meðal annars orðið til þess að fjöldi sálfræðinga í heilsugæslustöðvum landsins hefur tvöfaldast og eru nú 66 sálfræðingar að störfum á vegum heilsugæslustöðva. Auk þess hafa geðheilsuteymi tekið til starfa í heilsugæslunni um allt land, en teymin sinntu árið 2020 um 2.600 manns sem áður þurftu að leita annað til að fá þjónustu.
Ég hef einnig ákveðið að ráðstafa 100 milljónum í samninga við sjálfstætt starfandi sálfræðinga. Sjúkratryggingar Íslands vinna nú að samningagerð vegna þessa.
Sem sérstakt viðbragð við áhrifum sem Covid-19 hafði á heilbrigðisþjónustu voru í fjáraukalögum fyrir árið 2020 og á fjárlögum 2021 samþykktar 540 milljóna viðbótarfjárveitingar fyrir hvort ár til að efla þverfaglega geðheilbrigðisþjónustu og stemma stigu við áhrifum heimsfaraldursins á andlega heilsu.
Þá tók ég nú í lok ágúst ákvörðun um ráðstöfun rúmlega 100 milljóna í þverfagleg átaksverkefni á vegum Landspítala sem miða að því að efla geðheilbrigðisþjónustu við börn og ungt fólk og stytta biðlista eftir þjónustu.
Við þurfum að halda áfram að vinna að eflingu geðheilbrigðisþjónustu en á kjörtímabilinu hafa engu að síður verið stigin mikilvæg skref í þá átt.
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra og oddviti VG í Reykjavíkurkjördæmi suður