Search
Close this search box.

Eflum atvinnulýðræði

Deildu 

Mikilvægt er að auka lýðræði og gagnsæi á vinnustöðum til að tryggja betur að launafólk hafi aðkomu að ákvarðanatöku á vettvangi atvinnustarfsemi. Í gær var dreift á þingi tillögu minni um að skipa starfshóp aðila vinnumarkaðarins og hins opinbera, um hvernig best megi auka lýðræði á vinnustöðum. Þetta hefur lengi verið baráttumál vinstri flokka og með tilkomu fjórðu iðnbyltingarinnar er þetta enn mikilvægara baráttumál en oft áður, meðal annars í því að tryggja að launafólk njóti virðisaukans af tækniframförum.

Atvinnulýðræði verður viðbót við hið íslenska vinnumarkaðslíkan og liður í framþróun þess.

Á íslenskum vinnumarkaði hefur vinnandi fólk tryggt aðkomu sína að reglusetningu á vinnumarkaði í gegnum verkalýðsfélög. Í kjarasamningum er samið um kaup og kjör í tilteknum starfsgreinum eða vinnustöðum, við atvinnurekendur eða samtök þeirra. Þó kjarasamningar tryggi almenna aðkomu að reglusetningu tryggir það ekki aðkomu að ákvarðanatöku innan vinnustaða, sem hafa þó óneitanlega mikil áhrif á líf starfsfólks. Málinu er ætlað að draga ólíka aðila að borðinu, sem gera eiga tillögur um hvernig auka megi lýðræði á vinnustöðum.

Í undirbúningi mínum við tillögugerðina, en fyrstu fundi mína með þeim sem málið snerti átti ég í fyrra, varð ég þess áskynja að innan verkalýðshreyfingarinnar hafa sumir varann á sér gagnvart ákveðnum hugmyndum þessu tengdar. Eitt af því sem þarf að hafa í huga er að starfsmenn verði ekki gegn vilja sínum samábyrgir í ákvörðunum sem jafnvel bitna á þeim sjálfum, til dæmis sem óvirkir fulltrúar í stjórn.

Með það í huga og til að svara því hvaða fyrirkomulag henti best, legg ég til starfshóp sem fari yfir þessi mál. Tillögurnar eiga ekki að koma í stað eða grafa undan íslenska vinnumarkaðslíkaninu sem hefur þróast í rúma öld, heldur styðja við það. Mikilvægt er að tryggja að samtakamáttur og samstaða launafólks sé í hávegum höfð og efla stöðu verkalýðshreyfingarinnar. Atvinnulýðræði verður viðbót við hið íslenska vinnumarkaðslíkan og liður í framþróun þess.

Kolbeinn Óttarsson Proppé, alþingismaður.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search