Tillaga um lista VG í Kraganum liggur fyrir. Listinn verður kynntur á fundi kjördæmisráðs klukkan 20 í kvöld. Hér eru tillögur uppstillingarnefndar um þrjú efstu sætin:
Mummi leiðir
Uppstillinganefnd Vinstri grænna í Suðvesturkjördæmi mun leggja til á kjördæmisráðsþingi í Kópavogi í kvöld að Guðmundur Ingi Guðbrandsson varaformaður Vinstri grænna og alþingismaður leiði lista VG í kjördæminu. Guðmundur Ingi var einnig oddviti listans fyrir síðustu kosningar. Hann var framkvæmdastjóri Landverndar til ársins 2017 þegar hann kom skyndilega inn í pólitík og varð umhverfis- og auðlindaráðherra utan þings í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur og síðar félags- og vinnumarkaðsráðherra.
Eva skiptir um kjördæmi
Eva Dögg Davíðsdóttir mun samkvæmt tillögunni verma annað sætið, en hún tók við þingmennsku af Katrínu Jakobsdóttur í apríl síðastliðnum. Eva Dögg útskrifaðist með BA-próf í mannfræði frá Háskóla Íslands árið 2012, diplómu í alþjóðasamskiptum frá VID Specialized University árið 2013, og lauk meistaragráðu í breytingastjórnun með áherslu á sjálfbærni frá Háskólanum í Stavanger árið 2015. Hún hefur einnig stundað doktorsnám í umhverfis- og þróunarfræðum við Norwegian University of Life Sciences og var meðhöfundur matskýrslu sérfræðingahóps milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) um aðlögun og aðgerðir (2022).
Áður en Eva Dögg hóf störf á Alþingi starfaði hún sem sérfræðingur í sjálfbærnimálum hjá Allianz SE í München, auk þess að vera pólitískur ráðgjafi fyrir flokkahóp Norrænna vinstri grænna í Norðurlandaráði.
Formaður Innflytjendaráðs ný á lista
Uppstillinganefnd leggur til að Paola Cardenas lektor félagsráðgjafadeildar við Háskóla Íslands og sálfræðingur og teymistjóri hjá Barnahúsi skipi þriðja sætið. Paola varði doktorsritgerð sína í sálfræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2023, en hún fjallaði um andlega heilsu barna og ungmenna í hópi umsækjenda um alþjóðlega vernd á Íslandi.
Paola hefur stundað kennslu við Háskólann í Reykjavík og starfaði áður hjá sem sálfræðingur og yfirsálfræðingur hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, verkefnastjóri í málefum innflytjenda og barna- og ungmennamálum hjá Rauðakrossinum á Íslandi og sem ráðgjafi hjá Barna- og unglingadeild Landspítalans. Hún er einnig barnabókahöfundur. Hún hefur verið formaður Innflytjendaráðs frá árinu 2022.
Nánari upplýsingar um fund kjördæmisráðsins í Suðvesturkjördæmi má finna hér á vefnum og á Facebook viðburði fundarins.