PO
EN

Ég skammast mín.

Deildu 

Alþjóðasamfélagið hefur brugðist Palestínu. Evrópa, nánast öll, hefur brugðist Palestínu. Evrópusambandið hefur brugðist Palestínu. Heimsbyggðin, með fáeinum undantekningum, hefur þegjandi horft upp á þjóðarmorð í Palestínu. Í raun hafa hin svokölluðu „vestrænu lýðræðisríki“ fallið algjörlega á prófi mennskunnar vegna ástandsins í Palestínu. Þau hafa fallið á prófi mannúðar, á prófi samhygðar, á prófi mannréttinda og mennskan virðist gjaldþrota. Viðbrögðin, eða þó fremur skortur á viðbrögðum, undirstrikar tvískinnung hinna vestrænu ríkja. Þegar Rússar gera árásir á borgaraleg skotmörk í Úkraínu eru slíkar árásir réttilega fordæmdar af ráðamönnum í Evrópu. Þegar svipaðar árásir eru gerðar í Palestínu þegja ráðamenn í Evrópu þurru hljóði, vestræn ríki flest þegja þurru hljóði, æpandi þögn. Tvískinnungurinn fullkomnaður. Daglega eru saklausir borgarar, konur, börn og karlar drepin í Palestínu, með loftárásum og með landhernaði. Hjálparliðar eru drepnir með köldu blóði, skólar, flóttamannabúðir og sjúkrahús eyðilögð. Nýlega, 14. apríl s.l. var síðasta sjúkrahúsið á Gasa sprengt í tætlur. Komið er í veg fyrir að hjálpargögn berist til Gasa. Börn deyja úr hungri. Frá því yfirstandandi átök hófust í Palestínu er talið að 55-78 þúsund hafi verið drepin og um 60% þeirra eru konur, börn og gamalmenni. Ég skammast mín fyrir að tilheyra alþjóðlegu samfélagi sem lætur þjóðarmorð viðgangast. Ég skammast mín.

Hlutur Bandaríkjanna.

Í 75 ár hafa stjórnvöld í Bandaríkjunum með fjárframlögum og vopnasendingum stutt dyggilega við árásar- og útþenslustefnu Ísraelsríkis. Aðgerðir Ísraela á þessum tíma hafa einkennst af kúgun, drápum á saklausu fólki, landránum og aðskilnaðarstefnu sem leitt hafa ólýsanlegar hörmungar yfir Palestínumenn. Allar tilraunir SÞ í áranna rás til að koma á friði á svæðinu hafa stjórnvöld í Bandaríkjunum að engu gert með því að beita miskunnarlaust áhrifum sínum innan Sameinuðu þjóðanna. Við, Íslendingar, erum í sérstöku vináttusambandi við Bandaríkin með svokölluðum varnarsamningi. Síðustu vikur hafa íslenskir ráðherrar lýst fjálglega því gagnkvæma trausti sem ríkir milli Íslands og BNA, minnt á að Bandaríkjamenn séu „vinaþjóð“ okkar, „líkt þenkjandi þjóð“. Og að við verðum að vera „verðugur bandamaður“. Ég skammast mín fyrir að tilheyra þjóð sem vill vera í nánu samstarfi við slíka bandamenn. Ég skammast mín.

Skömm Íslands

Íslensk stjórnvöld þegja þurru hljóði. Einstaka stjórnmálamenn hafa fordæmt aðgerðir Ísraelsmanna en síðustu ríkistjórnir hafa brugðist, þær hafa beðið siðferðilegt skipbrot. Hið friðsæla velferðarsamfélag Ísland hefur brugðist fólkinu í Palestínu, börnum, konum og körlum. Hvað veldur því? Erum við bundin slíkum böndum við stórveldið í vestri að við vogum okkur ekki að tala máli þjóðar sem verið er að þurrka út? Af hverju höfum við ekki sett viðskiptabann á Ísrael? Af hverju höfum við ekki slitið stjórnmálasambandi? Eru það pólitískir, hernaðarlegir eða viðskiptalegir hagsmunir sem ráð því? Hverjir sem þessir hagsmunir eru er þögn og aðgerðarleysi íslenskra stjórnvalda skammarleg, smánarblettur á land og þjóð. Ég skammast mín fyrir að tilheyra samfélagi sem lætur þjóðarmorð viðgangast án viðbragða. Ég skammast mín.

Steinar Harðarson, gjaldkeri VG

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search