PO
EN
Search
Close this search box.

Eilíf höfuðborgarstefna

Deildu 

Sú byggðastefna sem rekin hefur verið hérlendis undanfarna áratugi hefur skilað þeim vafasama árangri að um 70% landsmanna búa á milli Hvítá í Árnessýslu og Hvítár í Borgarfirði. Á meðan berjast sveitarfélög utan þess svæðis við að halda uppi ákveðnu þjónustigi og vera búsetukostur sem laðar að nýtt fólk. Lengi hefur legið fyrir að sveitarfélögin þurfa að auka tekjustofna sína og fjölga íbúum. En hvernig?

Endurgreiðsla virðisaukaskatts er lykillinn að fjárhagslegum stöðugleika sveitarfélaga
Á síðasta ári greiddu sveitarfélög landsins um 15 milljarða í virðisaukaskatt fyrir lögbundin verkefni og leikskólabyggingar. Endurgreiðsla á þeim virðisaukaskatti myndi auka fjárhagslegan stöðugleika sveitarfélaga og bæta nýtingu opinberra fjármuna. Þetta eru miklir fjármunir sem sveitarfélög geta nýtt til innviðauppbygginga, til að þjónusta íbúa, eða greiða niður skuldir. Þrátt fyrir að flest sveitarfélög hafi hagrætt í rekstri undanfarin ár er takmarkað svigrúm til fjárfestinga eða almenns viðhalds eigna án lántöku. Verkefnum sveitarfélaga hefur fjölgað og vanfjármögnun þeirra veldur innviðaskuld og niðurskurði á þjónustu við íbúa. Ég tel að þessa skekkju megi leiðrétta með endurgreiðslu á virðisaukaskatti til sveitarfélaga.

Fjárhagslegir hvatar til eflingar landsbyggðarinnar
Í lögum um Menntasjóð námsmanna eru ákvæði um sértækar aðgerðir sem lúta að tímabundnum ívilnunum við endurgreiðslu námslána við sérstök skilyrði, til dæmis ef ákall er frá sveitarfélagi um þörf á menntuðu fólki á viðkomandi svæði. Greinin hefur aldrei verið virkjuð þrátt mikinn skort á menntafólki víða út um land. Á ferð minni um Norðvesturkjördæmi undanfarið hefur komið skýrt fram að skortur er á fólki með sérhæfða menntun á flestum þéttbýlisstöðum eins og hjúkrunarfræðingum, kennurum og lögreglufólki. Með því að veita fjárhagslega hvata til þeirra sem flytja með menntun sína út á land, geta byggðarlög dregið að sér sérfræðinga og fagmenntað fólk. Þannig eykst fjölbreytni og styrkur atvinnulífsins og tækifæri opnast til þess að laða að ný fyrirtæki og bæta aðgengi íbúa að heilbrigðisþjónustu. Fólk með sérmenntun getur komið með þekkingu og færni sem gagnast atvinnulífi á svæðinu og stuðlað að nýsköpun í heimabyggð. Slíkur hvati gerir landsbyggðina meira aðlaðandi fyrir ungt og menntað fólk og jafnar atvinnutækifæri um allt land sem stuðlar að heilbrigðari byggðaþróun. Ég tel þessa ráðstöfun skynsamlega og myndi hún hafa keðjuverkandi áhrif á íbúafjölgun á landsbyggðinni, sem skilar sér í aukinni aðsókn í skóla, íþróttafélög, verslanir og aðra þjónustu, sem eykur lífskraft og þrótt samfélagsins.

Jafnari lífskjör á landsbyggðinni
Sem stendur er íbúaþróun á landsbyggðinni verulegt áhyggjuefni og þarf af alvöru að opna á leiðir til að þróunin sé hraðari og fólk gæti hugsað sér aðra búsetukosti en höfuðborgarsvæðið og nágrenni. Norðmenn hafa farið þá leið að bjóða skattaafslátt fyrir þá íbúa sem búa visst langt frá þjónustu. Sá afsláttur er í formi persónuafsláttar sem dregur úr tekjuskatti launafólks. Í slíkum aðgerðum er mikill ávinningur, því oft er talað um landsbyggðarskatt hér á landi, í þeirri merkingu að dýrara er að búa þar sem þarf að fara um langan veg til að sækja sér þjónustu. Með skattaívilnun væru þau lífskjör jöfnuð með því að draga úr kostnaði við að búa á afskekktum svæðum og þjónustustig og lífsþróttur samfélaganna efldur. Þannig verða afskekktri svæði samkeppnishæfari gagnvart þéttbýlli svæðum hvað varðar laun og fjárhagsstöðu íbúa.

Til þess að tryggja sterkt og fjölbreytt mannlíf á landsbyggðinni þurfum við að nýta öll þau úrræði sem til eru til að jafna aðstöðumun landsins. Þetta eru raunverulegar lausnir sem styðja við öflugt atvinnulíf, velferð samfélaga og lífsgæði fólks um allt land auk þess að tryggja jafnvægi og byggðafestu. Það er nauðsynlegt að styðja við dreifðari byggðir landsins með afgerandi aðgerðum til að gera Ísland réttlátara og sterkara land.

Álfhildur Leifsdóttir, oddviti VG í Norðvesturkjördæmi

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search