PO
EN

Einu sinni var Póstur og Sími

Deildu 

Einu sinni og alls ekki fyrir svo löngu var til fyr­ir­tæk­ið; Póstur og Sími. Opin­bert fyr­ir­tæki sem sá land­inu fyrir fjar­skipta­þjón­ustu og ann­að­ist póst­dreif­ingu. Grunn­net fjar­skipt­anna, þ.e. síma­línur í lofti og jörðu, ljós­leið­ar­ar, örbylgju- og gervi­hnatta­sam­bönd, o.s.frv. ásamt póst- og sím­stöðvum um allt land, nán­ast í öllum byggðum voru í eigu fyr­ir­tæk­is­ins. Allt starf­rækt með það að mark­miði að veita land­inu öllu þjón­ustu. Hagn­aður af rekstri var ekki mark­mið fyr­ir­tæk­is­ins í sjálfu sér, en þó var það nú svo að mörg seinni árin í sögu sinni var fyr­ir­tækið rekið með ágætis afgangi og mynd­aði eig­anda sín­um, þjóð­inni þannig arð.

Svo var rík­is­fyr­ir­tæk­inu Pósti og Síma breytt í hluta­fé­lag. Þá var sagt að þetta væri bara eðli­leg form­breyt­ing í takt við tíð­ar­and­ann. Ekk­ert annað stæði til.

Svo var hluta­fé­lag­inu skipt upp í tvö hluta­fé­lög, Sím­ann og Póst­inn eftir aðeins tvö ár. Sem sagt eitt­hvað meira en form­breyt­ing aug­ljós­lega á ferð­inni. Þá fór að molna undan kostum þess og aug­ljósri sam­legð í því að sam­þætta þessa þjón­ustu.

Svo vildu menn einka­væða. Og Sím­inn var sölu­væn­legri. Fyrst var gerð mis­heppnuð til­raun nálægt alda­mót­unum til að selja Sím­ann. Hún rann út í sand­inn og fyr­ir­tækið því áfram rekið af rík­inu í nokkur ár í við­bót og hélt áfram að greiða eig­anda sín­um, þjóð­inni, arð.

En lítið lærðu menn af hinu fyrra einka­væð­ingar klúðri. Sím­ann að með­töldu grunn­neti fjar­skipta í land­inu skildi einka­væða hvað sem taut­aði og raulaði. Hug­mynda­fræð­in, teor­í­an, ríkti yfir raun­veru­leik­an­um. Þá var aftur spurt, er ekki að minnsta kosti hægt að und­an­skilja grunn­net fjar­skipt­anna, vega­kerfið sjálft í fjar­skipt­unum og halda því áfram í opin­berri eigu. Svar þeirra sem fyrir söl­unni stóðu var nei, það er ekki hægt. Fyr­ir­tækið er svo sam­þætt að það er ekki nokkur leið að skilja þessa hluti í sund­ur.

Sím­inn var seldur og því mikið hampað hvað ætti nú að byggja upp fyrir sölu­and­virð­ið. Fæst af því leit dags­ins ljós, fyrr en þá að hillir undir það nú löngu síðar og fjár­magnað með hefð­bundnum hætt úr rík­is­sjóði enda allir gömlu síma­pen­ing­arnir sokkn­ir. Dæmi þar um er hinn nýi Land­spít­ali.

En viti menn. Hið einka­vædda fyr­ir­tæki, Sím­inn var ekki ýkja gam­alt þegar það sjálft gerði það sem áður hafði verið sagt óger­legt, skipti sér upp í þjón­ustu­við­skiptin ann­ars vegar og grunn­netið og rekstur þess, þ.e. Mílu hins veg­ar. Og ekki er allt búið enn. Nú hefur hinn einka­væddi sími selt Mílu og hyggst greiða eig­endum sín­um, sem sagt núver­andi eig­endum hluta­fjár í Sím­anum 31,5 millj­arða króna í arð vegna hagn­aðar af sölu grunn­nets­ins til útlanda. Kjöl­festu­eig­endur þetta, ekki satt á bak við Sím­ann okk­ar. Fram­tíðar hagn­aður af starf­sem­inni mun því renna frá land­inu til útlanda í formi arð­greiðslna og ákvarð­anir um mik­il­væg­ustu fjar­skipta­inn­viði Íslands eft­ir­leiðis teknar í Frakk­landi.

Allir sáttir er það ekki, sem hófu leið­ang­ur­inn 1995/1996?

Steingrímur J. Sigfússon, fyrr­ver­andi for­maður Vinstri grænna, ráð­herra og for­seti Alþing­is.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search