Einu sinni og alls ekki fyrir svo löngu var til fyrirtækið; Póstur og Sími. Opinbert fyrirtæki sem sá landinu fyrir fjarskiptaþjónustu og annaðist póstdreifingu. Grunnnet fjarskiptanna, þ.e. símalínur í lofti og jörðu, ljósleiðarar, örbylgju- og gervihnattasambönd, o.s.frv. ásamt póst- og símstöðvum um allt land, nánast í öllum byggðum voru í eigu fyrirtækisins. Allt starfrækt með það að markmiði að veita landinu öllu þjónustu. Hagnaður af rekstri var ekki markmið fyrirtækisins í sjálfu sér, en þó var það nú svo að mörg seinni árin í sögu sinni var fyrirtækið rekið með ágætis afgangi og myndaði eiganda sínum, þjóðinni þannig arð.
Svo var ríkisfyrirtækinu Pósti og Síma breytt í hlutafélag. Þá var sagt að þetta væri bara eðlileg formbreyting í takt við tíðarandann. Ekkert annað stæði til.
Svo var hlutafélaginu skipt upp í tvö hlutafélög, Símann og Póstinn eftir aðeins tvö ár. Sem sagt eitthvað meira en formbreyting augljóslega á ferðinni. Þá fór að molna undan kostum þess og augljósri samlegð í því að samþætta þessa þjónustu.
Svo vildu menn einkavæða. Og Síminn var söluvænlegri. Fyrst var gerð misheppnuð tilraun nálægt aldamótunum til að selja Símann. Hún rann út í sandinn og fyrirtækið því áfram rekið af ríkinu í nokkur ár í viðbót og hélt áfram að greiða eiganda sínum, þjóðinni, arð.
En lítið lærðu menn af hinu fyrra einkavæðingar klúðri. Símann að meðtöldu grunnneti fjarskipta í landinu skildi einkavæða hvað sem tautaði og raulaði. Hugmyndafræðin, teorían, ríkti yfir raunveruleikanum. Þá var aftur spurt, er ekki að minnsta kosti hægt að undanskilja grunnnet fjarskiptanna, vegakerfið sjálft í fjarskiptunum og halda því áfram í opinberri eigu. Svar þeirra sem fyrir sölunni stóðu var nei, það er ekki hægt. Fyrirtækið er svo samþætt að það er ekki nokkur leið að skilja þessa hluti í sundur.
Síminn var seldur og því mikið hampað hvað ætti nú að byggja upp fyrir söluandvirðið. Fæst af því leit dagsins ljós, fyrr en þá að hillir undir það nú löngu síðar og fjármagnað með hefðbundnum hætt úr ríkissjóði enda allir gömlu símapeningarnir sokknir. Dæmi þar um er hinn nýi Landspítali.
En viti menn. Hið einkavædda fyrirtæki, Síminn var ekki ýkja gamalt þegar það sjálft gerði það sem áður hafði verið sagt ógerlegt, skipti sér upp í þjónustuviðskiptin annars vegar og grunnnetið og rekstur þess, þ.e. Mílu hins vegar. Og ekki er allt búið enn. Nú hefur hinn einkavæddi sími selt Mílu og hyggst greiða eigendum sínum, sem sagt núverandi eigendum hlutafjár í Símanum 31,5 milljarða króna í arð vegna hagnaðar af sölu grunnnetsins til útlanda. Kjölfestueigendur þetta, ekki satt á bak við Símann okkar. Framtíðar hagnaður af starfseminni mun því renna frá landinu til útlanda í formi arðgreiðslna og ákvarðanir um mikilvægustu fjarskiptainnviði Íslands eftirleiðis teknar í Frakklandi.
Allir sáttir er það ekki, sem hófu leiðangurinn 1995/1996?
Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi formaður Vinstri grænna, ráðherra og forseti Alþingis.