Search
Close this search box.

Ekki raforkan einber  

Deildu 

Samfélagið verður að hraða svo um munar öllum aðgerðum sem minnka losun gróðurhúslofttegunda og auka sterklega við bindingu kolefnis. Orkuskipti í samgöngum og útgerð eru einn þátturinn. Bílar, vinnuvélar og minni bátar knúnir raforku úr hlaðanlegum rafgeymum er ein lausnanna og sú sem getur borið mikinn árangur. Að því sögðu er mjög mikilvægt að huga að öðrum aðferðum við orkuskipti, einkum þeim sem styðjast við framleiðslu eldsneytis hér innanlands.

Möguleikar eru margvíslegir en ég legg hér áherslu á þrjár þeirra. Bílar, vinnuvélar og sjóför geta verið nýtt vetni sem knýja rafmótora. Tækninni fleygir þar fram og ýmsir framleiðendur stefna á þann markað. Metan er er hægt að nota á bíla, vinnuvélar og brunavélar í skipum og bátum. Hreinsað metan úr úrgangshaugum og úrgangi frá húsdýrum er einn kostur en hinn er sá að nota kolefnisútblástur jarðvarmavirkjana eða verksmiðja, ásamt vetni, til að framleiða hreint metan. Véltæknin er auðveld og rétt að auka eftirspurnina mikið með því að niðurgreiða eldsneytið. Þriðja efnið er metanól (tréspíri) sem líka er framleitt úr kolefnisgasi og vetni en öll framleiðsla Carbon Recycling í Svartsengi er nú flutt út. Efnið hentar til blöndunar í jarðefnaeldsneyti og unnt að auka mjög framleiðslugetuna hér heima og breyta reglum og aðstæðum þannig að íslenskt metanól nýtist innanlands en núverandi innflutningi íblöndunarefna hætt. Metanól gengur líka eitt og sér á brunavélar en hentar einna helst í báta- og skip.

Fleira mætti nefna og kemur það allt fram í vandaðri skýrslu sem er nýkomin fram á Alþingi. Ég fékk beiðni um hana samþykkta til ráðherra orkumála og fullyrði að hún er gagnleg í umræðu og stefnumótun varðandi loftslagsmál og orkuskipti. Hvet sem flesta til að kynna sér efnið og einnig efni skýrslu sem kom út 2018 (Nýjar aðferðir við orkuöflun) og fjallar m.a. um vindorku og sjávarorku. Mjög brýnt er að endurskoða sem fyrst allt laga- og reglugerðarumhverfi vindorkuvera.

Ari Trausti Guðmundsson,  þingmaður VG

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search