Search
Close this search box.

Eldgos og jarðskjálftar

Deildu 

Til­efni þess­arar greinar eru óróa­merki og ýmsir nýliðnir atburðir í all­mörgum af eld­stöðvakerfum lands­ins. Ég dreg saman upp­lýs­ingar héðan og þaðan og renni stutt­lega yfir það helsta.

FAGRA­DALS­FJALL 

Afgösun úr Geld­inga­dala-eld­borg­inni hefur minnkað en ekki stöðvast að mestu. Skjálfta­virkni hefur verið þrá­lát en minnkað S við Keili og lít­il­lega grynnkað á hana. Land­lyft­ing mælist þar og lengra til suð­urs og merki er um þenslu, senni­lega á 15-20 km dýpi (í kviku­þró?). Haldi þró­unin áfram aukast líkur á frek­ari umbrotum í nánd við Fagra­dals­fjall. Hins vegar má telja nokkuð öruggt að eld­borgin sé þögn­uð, sbr. yfir­lýs­ingu þar um.

HEKLA

Hekla hefur risið og bólgnað langt umfram stöð­una fyrir gosið 2000. Smá­skjálfta­virkni hefur mælst árum saman en ekki tíðar hrær­ing­ar. Ára­tugur er lið­inn umfram tíu ára gos­tíð­ina milli 1970 og 2000. Skjálfta­virkni í Vatna­fjöll­um, sem er eld­virkt svæði með skyld efna­fræði­leg fingraför við Heklu, er talin til virkni á Suð­ur­lands­skjálfta­belt­inu.AUGLÝSINGhttps://static.airserve.net/kjarninn/websites/kjarninn/adzones/grein-midjufleki-1/banner133609.htmlEkki hefur tek­ist að para saman þar skjálfta og Heklu­gos, en ekki unnt að úti­loka að stundum geti gætt áhrifa af stórum eða með­al­stórum jarð­hrær­ingum af þessu tagi á eld­fjall­ið. Það eitt má segja um stöð­una að Heklu­gos getur haf­ist hvenær sem er – og aðdrag­and­inn er stutt­ur.

GRÍM­SVÖTN

Í Grím­svötnum hefur verið líf­leg gos­virkni sbr. eldsum­brotin 1983, 1998, 2004 og 2011, auk Gjálp­ar­gos­ins 1996 fyrir norðan þau. All­mikil jök­ul­hlaup, flest vegna jarð­hita­virkni, hafa verið reglu­leg en smá á 20. öld (stærð­argráða 1.000 rúmm/­sek), eftir stóra Gjálp­ar­hlaup­ið. Síðla sl. nóv­em­ber hafði um 1 millj­arður rúmmetra vatns safn­ast í Vötn­in, skv. mæli­gögn­um. Þá var 17 fer­kíló­metra stöðu­vatn undir fljót­andi jök­ul­hell­unni í öskju eld­stöðv­ar­inn­ar. Vatns­hæðin náði „lyfti­getu“ í lok nóv­em­ber og tók þá rennsli í Gígju­kvísl að aukast. Stefnir í með­al­stórt hlaup. Kvika rís til meg­in­eld­stöðv­ar­inn­ar, nú sem und­an­farna ára­tugi. Tölu­verð skjálfta­virkni hefur verið ár hvert, und­an­far­ið. Sum Grím­s­vatna­gos leiða bein­línis til Skeið­ar­ár­hlaupa en jök­ul­hlaup geta líka leyst Grím­s­vatna­gos úr læð­ingi eins og árið 2004. Staðan gæti bent til að líkur á eldsum­brotum vaxi veru­lega á næst­unni, jafn­vel í kjöl­far nýjasta jök­ul­hlaups­ins.

ÖRÆFA­JÖK­ULL

er virk og mjög stór meg­in­eld­stöð. Gosin tvö á sögu­legum tíma eru vel kunn. Það fyrra (1362) var harka­legt og olli miklu tjón, m.a. vegna ösku­flóða og öfl­ugs jök­ul­hlaups. Und­an­farin ár hafa komið fram ummerki um aukna virkni í fjall­inu: Nýtt jarð­hita­svæði undir miðjum jök­ul­bunk­an­um, jarð­hita­vatn í afrennsli og aukin skjálfta­virkni undir fjall­inu, þó ekki sívax­andi. Atburðrás sem þessi getur staðið árum, senni­lega ára­tugum sam­an, án eldsum­brota en einnig mögu­legt að hún stig­magnist, m.a. með kvikuinnskotum sem kynnu að vera und­an­fari eld­goss.

ASKJA

Askja á sér langa og fjöl­breytta eld­gosa­sögu. Hún er sú meg­in­eld­stöð, með stóru öskju­sigi og án jök­ul­þekju, sem er einna skýr­ust í lands­lagi hjá okk­ur. Sveina­gjár­eldar og öfl­uga gjósku­gosið síðla á 19. öld og röð miklu minni gosa 1920 til 1930, auk gos­ins 1961, bera virkni hennar vitni. Hægt minnk­andi land­sig í Öskju mæld­ist 1983 til 2020. Frá því snemma í ágúst 2021 hefur mælst næstum 20 cm land­hækk­un, með ris­miðju á vest­ur­bakka Öskju­vatns. Tölu­verð skjálfta­virkni er sam­tím­is, en aust­an­vert við vatn­ið, og hefur hún eflst und­an­farna rúma tvo mán­uði. Lík­an­reikn­ingar benda inn­flæðis kviku, svo nemur yfir 6 milljón rúmmetr­um. Frek­ari mæl­ingar og víð­tæk­ari reikn­ingar gefa skýr­ari mynd. Atburða­rásin getur orðið all­löng og stöðvast án eldsum­brota, en líka farið svo að gos hefj­ist í Öskju eða utan Dyngju­fjalla. Teikn um að í það stefni ættu að verða nokkuð skýr. 

BÁRЭAR­BUNGA

Bárð­ar­bunga sýnir engin merki þess að hún legg­ist í langan dvala eftir Holu­hraun­selda 2014-2015, þvert á móti: Land­ris, mælt utan í eld­fjall­inu, við­var­andi skjálfta­virkni, m.a. stóra skjálfta á hring­laga öskju­jaðr­in­um, litla skjálfta á miklu dýpi austan fjalls­ins (ætt­ar­dýpi kviku), og auk­inn jarð­hita í öskj­unni. Eld­stöðvakerfi Bárð­ar­bungu er stórt og vel virkt í sög­unni. Það nær inn í sprungu­kerfi Torfa­jök­ul­s-eld­stöðv­ar­innar og lang­leið­ina vestur fyrir Öskju. Telja má tölu­verðar líkur á að upp úr sjóði í eld­fjall­inu, eða fjær, á næstu árum eða ára­tug­um. 

TORFA­JÖK­ULL

Ein­kenni Torfa­jök­uls­meg­in­eld­stöðv­ar­inn­ar, auk stórrar öskju, eru útbreiddar mynd­anir úr kís­il­ríku (súru) bergi. Sprungu­kerfi Bárða­bungu og norð­ur­hluti öskju Torfa­jök­uls skar­ast og gliðn­un­ar­hrinur í því fyrr­nefnda kalla fram óróa og jafn­vel eld­gos í því síð­ar­nefnda. Þannig var með jarð­eldana í kringum árið 100 og 877. Einnig 1477 en þá gaus hressi­lega þar sem nú eru Veiði­vötn (í Bárð­ar­bungu­kerf­inu) og í litlum mæli á Torfa­jök­uls­svæð­inu (m.a. rann þá Lauga­hraun). All­tíðar jarð­skjálfta­hrinur ganga yfir Torfa­jök­uls­svæðið og vísa til þess að við verðum að gera þar ráð fyrir eldsum­brotum fyrr eða síð­ar.

KATLA

Að með­al­tali hefur liðið um hálf öld á milli svo öfl­ugra, sögu­legra eld­gosa í Kötlu að þau hafa bæði gatað jökul­inn yfir öskj­unni og sent jök­ul­hlaup til sjáv­ar. Miðað við gosið 1918 hefur sú til­hneig­ing verið rof­in. Um smá­gos undir jökli á umliðnum 100 árum skal ekki fjöl­yrt.AUGLÝSINGhttps://static.airserve.net/kjarninn/websites/kjarninn/adzones/grein-midjufleki-1/banner130129.htmlKatla hefur sýnt af sér hefð­bundin merki auk­innar en bylgj­óttrar virkni, svo sem tíma­bundið land­ris, fjölgun háhita­svæða, minni háttar jök­ul­hlaup og nokkuð þrá­láta jarð­skjálfta­virkni í öskj­unni og undir Goða­bungu vestan henn­ar. M.a. skilar farglétt­ing vegna sum­ar­bráðn­unar á jökli sér í auk­inni tíðni skjálfta á haustin. Skýr ummerki yfir­vof­andi eld­goss, m.a. öfl­ugir jarð­skjálftar eða skyndi­legt land­ris, munu vafa­lítið vera und­an­fari eldsum­brota, en nú sem stendur er ekki unnt að bæta neinu við setn­ing­una: – Fylgst er vand­lega með eld­stöð­inni.

HENG­ILL

Eld­stöðvakerfi Heng­ils­ins er stærst kerf­anna á Reykja­nesskaga og Heng­ill­inn stækk­andi eld­fjall með kviku­hólfi. Síð­ast gaus þar ­fyrir um 1.900 árum úr slitr­óttri sprungu, frá Hell­is­heiði og Stóra-­Meitli yfir að Nesja­völlum og úti í Þing­valla­vatni (Sand­ey). Miklir jarð­skjálft­ar, m.a. á Þing­völl­um, og senni­lega inn­skota­virkni settu mark sitt á árið 1789. Árin 1994 til 1999 mæld­ust fjöl­margir skjálftar í Hengli og nágrenni og land­ris varð á mið­svæði kerf­is­ins, vegna inn­skots í rætur fjalls­ins. Ástæða er til að fylgj­ast vel með Heng­ils­kerf­inu og er það gert, m.a. vegna skjálfta sem tengj­ast nið­ur­dæl­ingu jarð­hita­vökva en hún er þó ekki talin hafa nein áhrif á ástand kviku­geyma á miklu meira dýpi en dæl­ingin nær til.

BRENNI­STEINS­FJÖLL

Vestan við Heng­ils­kerfis nær virkt eld­stöðvakerfi yfir Brenni­steins­fjöll, Blá­fjöll og nágrenni þessa hálend­is. Þar ganga yfir gliðn­un­ar- og eld­gosa­hrinur eins og ann­ars staðar á Reykja­nesskaga. Síð­ast gerð­ist það á síð­ari hluta 10. aldar og inn í þá 11. Hraunið austan Litlu kaffi­stof­unnar (Svína­hrauns­bruni eða Kristni­töku­hraun) er frá þessum tíma. Einnig hraun­flæmi nálægt skíða­svæðum Blá­fjalla og úr gos­s­töðvum í Brenni­steins­fjöll­um. Jarð­skjálftar M6+ geta orðið á N-S sprungum í kerf­inu. Allsnarpar skjálfta­hrin­ur, t.d. í Þrengsl­um, eru nýleg dæmi um óró­leika og alls óvíst hvernig eld­stöðvakerfið bregst við umbrota­tíma­bil­inu sem kann að vera í upp­sigl­ingu á öllum skag­an­um.

KRAFLA

Þriðja gliðn­un­ar- og gos­hrinan á sögu­legum tíma í Kröflu­kerf­inu gekk yfir 1975-1984 með yfir tutt­ugu kviku­hlaupum (inn­skota­hrin­um) og níu eld­gos­um. Þar á undan upp­lifðu menn Mývatns­elda 1724-1729 og enn fyrr Dal­selda, senni­lega nálægt 950. Land seig í Kröflu, a.m.k. fram undir síð­ustu alda­mót, og hefur ekki risið að neinu marki á stóru svæði. Stutt er aftur á móti i gló­heit kvikuinnskot, sbr. nýlega bor­holu sem end­aði í hálf­stork­inni kviku á 2,1 km dýpi. Gera má ráð fyrir alda­löngu gos­hléi í Kröflu­kerf­inu en þó er aldrei unnt að full­yrða um hegðan eld­stöðva, ein­göngu miðað við fyrri sögu.

REYKJA­NES­HRYGGUR

Plötu­skilin á Norð­ur­-Atl­ants­haf­hryggnum næst Íslandi kall­ast Reykja­nes­hrygg­ur. Úti á Reykja­nes­hrygg liggja ská­stæðar hálend­is­skákir norð­austur eftir plötu­skil­un­um. Þar eru sigdal­ir, gos­bergs­mynd­an­ir, eld­stöðvar og eyjar hlað­ast upp og hverfa af völdum sjáv­ar­rofs, sumar hratt en aðrar hægt. Dæmi um skamm­lífa eyju er Nýey frá 1783 en Eldey er dæmi um lang­lífa eyju (aldur óþekkt­ur). Heim­ildir eru um gos á þessu slóð­um, t.d. 1830, og vitað er um að gjósku­gos urðu skammt undan landi á Reykja­nesi (Reykja­nestá) snemma í Reykja­nes­eldum 1210-1240. Nýlegir skjálft­ar, til­færslur háhita­svæða og mögu­leg inn­skota­virkni benda til þess að telja beri Reykja­neskerfið virkt svæði sem getur opn­ast fyrir kviku að neð­an, úti á hafi eða inni á land­i. 

SNÆ­FELLS­NES

Snæ­fells­nes skera þrjú eld­stöðvakerfi með stefnu NV/SA. Tvö þeirra eru áber­andi: Snæ­fells­jök­ull (meg­in­eld­stöð/eld­keila) og nágrenni og svo Ljósu­fjalla­kerfið sem liggur frá Hrauns­firði í NV yfir Hnappa­dal, Hít­ar­dal og að Grá­brók í Norð­ur­ár­dal. Jök­ull­inn og nágrenni bærðu síð­ast á sér fyrir um 1.700 árum með litlu hraun­gosi (Væju­hran rann í hlíðum eld­keil­unn­ar). Nokkru áður, fyrir um 1.800 árum, varð allöflugt gjósku­gos ásamt hraun­flæði í eld­fjall­inu með til­heyr­andi jök­ul­hlaupi. Í Ljósu­fjalla­kerf­inu gaus síð­ast skömmu eftir land­nám, í Rauð­hálsum í Hnappa­dal. Þar á undan urðu Rauða­melskúlur til fyrir um 2.600 árum. Grá­brók er þús­und árum eldri en þeir gígar og hin þekkta Eld­borg er enn eldri. Mjög lítil skjálfta­virkni er í og við Snæ­fells­jökul en ástæða til að að rann­saka inn­viði eld­stöðv­ar­innar betur og auka vöktun henn­ar. Heldur meiri skjálfta­virkni hefur verið um mið­bik Ljósu­fjalla­kerf­is­ins, einkum í Hít­ar­dal. Af henni verða þó ekki dregnar neinar álykt­anir um hættu á eld­gosi en full ástæða til árvekni og góðrar vökt­un­ar.

Önnur eld­stöðvakerfi í land­inu en hér koma fram geta breytt og aukið virkni sína hvenær sem er. Þess vegna hefur verið byggt upp öfl­ugt rann­sókna- og vökt­un­ar­kerfi.

Ari Trausti Guðmundsson, rit­höf­undur og jarð­vís­inda­mað­ur og fyrrv. þingmaður VG

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search