Search
Close this search box.

Eldhúsdagur : Andrés Ingi

Deildu 

Forseti.

Góðu áhorfendur.

Hvernig lítur framtíðin út?

Þær gerast varla stærri eða mikilvægari, spurningarnar sem við getum spurt okkur. Og á síðustu misserum hefur hún orðið sífellt áleitnari.

Loftslagsvandinn þótti vera fjarlægur vandi framtíðarinnar fyrir ekki svo löngu. Það er t.d. ótrúlega stutt síðan umræða um loftslagsmál var sögð vera „hysterísk á köflum og ekki mjög yfirveguð“ hér í þessum ræðustól. Þau sem töluðu fyrir metnaðarfullum aðgerðum í loftslagsmálum voru jafnframt sögð falla í þá gryfju að mála skrattann á vegginn og gerast heimsendaspámenn.

Þetta var árið 2005. Ekki aftur í grárri forneskju.

Ímyndum okkur hversu miklu betur heimurinn stæði í dag, ef hlustað hefði verið á stjórnmálamenn sem litu til lengri framtíðar en kjörtímabilið á enda, frekar en að saka þá um að vilja færa Íslendinga aftur í torfkofana.

Sem betur fer hefur umræða um loftslagsmál tekið miklum breytingum til hins betra á síðustu árum. Enda er loftslagsvandinn ekki bara vandi framtíðarinnar heldur samtímans. Og vegna þess að ekki var hlustað nægjanlega á þau sem vildu grípa til aðgerða miklu fyrr, þá stefnir heimurinn að óbreyttu í hamfarahlýnun af mannavöldum.

– – –

Mér finnst ekki nógu oft sagt hversu mikið er spunnið í ungt fólk dagsins í dag. Á síðustu árum höfum við séð fjöldahreyfingu barna og ungmenna rísa upp við hvert tilefnið á fætur öðru til að vekja samfélagið til umhugsunar um málefni sem brýnt er að takast á við.

Nýjasta bylgjan og mögulega sú öflugasta er loftslagsverkfallið. Um allan heim stígur ungt fólk fram til að berjast fyrir framtíðinni. Framtíðinni sinni, sem það neitar að leyfa okkur sem eldri erum að stela frá sér.

Þau mótmæla aðgerðaleysi stjórnvalda.

Þessi lýsing er kannski of almenn þannig að mig langar að umorða þetta.

Loftslagsverkfallið beinist að aðgerðaleysi mínu. Það beinist að aðgerðaleysi okkar allra sem sitjum hér í sal Alþingis. Það beinist að öllum kjörnum fulltrúum á öllum þingum og í öllum ríkisstjórnum heims. Vegna þess að þrátt fyrir að mörg jákvæð skref hafi verið stigin, þá hefur enn hvergi verið gert nóg til að snúa við loftslagsbreytingum.

– – –

Síðastliðinn föstudag mætti ég einu sinni sem oftar á loftslagsverkfall hér á Austurvelli til að hlusta. Þar bað einn ræðumaðurinn, Gunnhildur Fríða Hallgrímsdóttir, okkur um að ímynda okkur að árið sé 2050 og að mannkynið hafi náð að snúa við loftslagsbreytingum.

„Hvernig fór fólkið að því?“ spurði skólabarn í þessari framtíðarsýn Gunnhildar, og fékk einfalt svar: „Með því að vinna sem eitt, sem mannkyn en ekki lönd, með því að vera sammála um það að við viljum eiga framtíð á þessari jörðu. Það var að vísu mjög erfitt, það þurfti að fórna ýmsu, en þau græddu líka margt. En var það þess virði? Svo sannarlega.“

Er það ekki einmitt svona sem við viljum að framtíðin líti út?

– – –

Þá þurfum við að standa undir þeirri ábyrgð sem okkur er falin sem kjörnum fulltrúum. Við þurfum að grípa til aðgerða. Það hrekkur nefnilega skammt að almenningur minnki kjötát, flokki rusl eða fyllist flugviskubiti ef að við, sem um valdataumana höldum, leggjum ekki okkar af mörkum. Krafan hlýtur að vera að við tökum saman höndum svo þessi sýn verði að veruleika. Að við bjóðum upp á stjórnmál fyrir framtíðina!

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search