Search
Close this search box.

Eldhúsdagur : Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Deildu 

Virðulegur forseti. Góðir landsmenn.

Það voru margir sem ráku upp stór augu þegar núverandi ríkisstjórn var mynduð fyrir einu og hálfu ári síðan og hefur fólki verið tíðrætt um það síðan hvað samstarf þessara þriggja flokka er óvenjulegt. Það er hins vegar að koma betur og betur í ljós, einu og hálfu ári eftir að ríkisstjórnin tók til starfa, að breið samstaða skilar árangri. Stundum þarf að setjast aðeins yfir málin en niðurstaðan er oftast nær breið og þétt samstaða.

Á eldhúsdegi fyrir ári síðan ræddi ég um ferska vinda í verkalýðshreyfingunni og mikilvægi samstarfs stjórnvalda og verkalýðshreyfingarinnar. Nú í vor sáum við ávöxt þeirrar samvinnu þegar lífskjarasamningur var undirritaður þann 3. apríl eftir afar strembnar samningaviðræður.

Samhliða því að aðilar vinnumarkaðarins skrifuðu undir kjarasamninga þar sem áhersla var lögð á þá sem standa höllustum fæti í samfélaginu, kynnti ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur 45 aðgerðir honum til stuðnings.

Meðal þeirra er lenging fæðingarorlofs í 12 mánuði sem ekki er einungis bót fyrir barnafólk heldur einnig mikilvægt jafnréttismál. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem lagt er til að lengja fæðingarorlof en nú mun það standa. Jafnari hlutur foreldra í orlofi ætti jafnframt að stuðla að jafnari stöðu foreldra þegar snúið er aftur á vinnumarkað eftir barneignir.

Það var sérstakt ánægjuefni að samningsaðilar komu  sér saman um að leggja áherslu á hækkanir til þeirra lægst launuðu í samningnum. Til að koma enn frekar til móts við þann hóp voru einnig kynntar breytingar á skattkerfinu með nýju lágtekjuskattþrepi og jafnframt breytingum á barnabótakerfinu sem koma þeim launalægstu  best.

Unga fólkið hefur mátt sitja eftir í hagsveiflu undanfarinna ára og það þarf ekki að fjölyrða hér frekar um húsnæðisvandann sem  sérstaklega hefur komið niður  á ungu fólki og einstæðum foreldrum. Það er mikilvægt að húsnæðiskostnaður éti ekki upp stóran hluta ráðstöfunartekna fólks enda á það að vera sjálfsagt að fólk hafi í sig og á eftir að reikningar hafa verið greiddir í byrjun hvers mánaðar, en ekki forréttindi.  Þess vegna skiptir aukinn stuðningur í húsnæðismálum sérstaklega miklu máli. Þar má nefna hlutdeildarlán, nýja tegund af húsnæðislánum fyrir tekjulága, skýrari reglur um leiguvernd, ráðstöfun ríkislóða fyrir íbúðir og úrræði vegna fyrstu kaupa nýtist þeim sem hafa ekki átt íbúð í fimm ár. Þar að auki stendur til að endurvekja félagslegt húsnæðiskerfi með stofnstyrkjum til uppbyggingar allt að 1800 íbúða til viðbótar þeirri uppbyggingu sem nú er í gangi. Allt mun þetta stuðla að því að fólk hafi raunverulegt val um hvort það á sitt eigið húsnæði eða búi í öruggu leiguhúsnæði.

Kæru landsmenn. Þegar þessi ríkisstjórn lagði af stað fyrir rúmu einu og hálfu ári síðan voru óvissuteikn á lofti. Spennan í þjóðarbúskapnum dróst hraðar saman en spár gerðu ráð fyrir, óvissa ríkti á vinnumarkaði og svo raungerðist það sem margir höfðu spáð um langa hríð, að ein stærsta atvinnugreinin okkar, ferðaþjónustan, stendur nú frammi fyrir samdrætti.

Þannig hefur dregið úr vextinum og í nýútkominni spá Hagstofu Íslands er spáð samdrætti í hagkerfinu á þessu ári. Því hljótum við að bregðast við en í tengslum við áætlanagerð ríkisins hef ég ávallt talað um að það þurfi að vera sveigjanleiki í áætlunum. Gangi þær spár ekki eftir sem áætlanirnar byggja á, þá aðlögum við áætlanirnar. Sem betur fer hefur þessi ríkisstjórn skilið eftir talsvert svigrúm í afkomu ríkissjóðs til þess að mæta slíkum áföllum. Ísland stendur vel og þarf enginn að óttast það að við ráðum ekki við skammtíma áfall á borð við gjaldþrot flugfélags og loðnubrest.

Í fyrsta skipti í áratugi eiga Íslendingar meiri eignir erlendis en þeir skulda og Seðlabankinn hefur brugðist við kólnun hagkerfisins með því að veita súrefni inn á kerfið með því að lækka vexti um hálft prósentustig í síðustu viku. Það skilar sér í lægri greiðslubyrði húsnæðislána,  meiri krafti í fjárfestingu og svo framvegis.

Í þetta skiptið er Ísland reiðubúið undir kólnun enda hafa landsmenn aukið þjóðhagslegan sparnað, skuldir hafa verið greiddar niður og skynsamlegir kjarasamningar gerðir. Ég er því full bjartsýni á að við náum farsælli lendingu.

Kæru landsmenn.

Ég hafði leyft mér að hlakka til að geta staðið hér og farið yfir fjölmörg góð mál sem munu koma sér vel fyrir Íslendinga. Til dæmis Heilbrigðisstefnu til ársins 2030 sem mun vera grundvallarplagg til að betrumbæta heilbrigðisþjónustu hér á landi.

Fyrir þinginu liggur einnig þingsályktunartillaga um áætlun gegn ofbeldi og afleiðingum þess. Löngu tímabært mál, enda hafa undanfarin ár sýnt okkur að samfélagið, og í raun heimurinn allur, hefur sofið á verðinum í baráttunni gegn ofbeldi.

Ríkisstjórnarflokkarnir samþykktu á dögunum frumvarp félagsmálaráðherra um sérstaka uppbót vegna framfærslu og meðferð atvinnutekna. Á mannamáli þýðir það fyrsta skrefið til afnema hina svokölluðu krónu á móti krónu skerðingu.

Þá liggja fyrir góð þingmannamál, svo sem lögfesting samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og frumvarp um rétt barna sem aðstandendur þegar foreldri glímir við alvarleg veikindi eða fellur frá.

En það er alls óvíst hvort og þá hvenær þessi mál fá hér fram að ganga vegna þeirrar stöðu sem við stöndum nú frammi fyrir. Vegna þess að einn þingflokkur hefur tekið það að sér að tala hér í tæpar tvær vikur, á milli þess sem hann sannfærir þing og þjóð um að þeir séu alls ekki að stunda málþóf. Á meðan bíðum við hin 54 sem eigum sæti hér á alþingi, eftir því að geta tekið þessi góðu og þörfu mál til umræðu og afgreiðslu.

149. þing hefur verið starfssamt og afkastamikið og nú er komið að því að uppskera. Þannig virkar Alþingi, þingið okkar í lýðræðissamfélagi. Það er óásættanlegt að einn þingflokkur taki sér þá stöðu að halda löggjafanum og þar með lýðræðinu í uppnámi. Slíkt á ekki að líðast. Forseti, meirihluti Alþingis vill ljúka 149. þingi með afgreiðslu mála eins og lög gera ráð fyrir. Á þessum bjarta degi er full ástæða fyrir sóknarhug og bjartsýni. Samfélagið á það skilið að við höldum áfram að sækja fram, fyrir alla landsmenn og framtíðina.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search