Eldri Vinstri græn undirbúa nú fyrstu samkomu ársins í Stangarhyl og jafnframt þá fyrstu síðan í febrúar fyrir rúmu ári. Boðað verður til fundar með dagskrá 14. apríl. Kórónuveirufaraldurinn lokaði á samkomuhald í mars 2020 og nú þykir EVG-félögum kominn tími til að fara að hittast og hlakka mikið til. „Stemningin hjá okkur er góð og allir hressir. Enda erum við vön að bjarga okkur í allskonar aðstæðum, segir Þóra Elfa Björnsson, sem situr í undirbúningsnefnd EVG-samkomanna. Ekki var áhugi á því að halda EVG-fundi á netinu, en margir félagar tóku virkan þátt í fjarfundum annarra hópa, málefnastarfi og stjórnum. En það var samdóma álit flestra í EVG að netfundir gætu ekki komið í staðinn fyrir þá samveru sem býðst á fundum EVG sem eru menningarviðburðir með samsettri dagskrá og kaffiveitingum. Þóra Elfa og félagar auglýsa efni fundar14. apríl á næstu dögum og lofa veglegri dagskrá.