Sum okkar muna, á árum Kalda stríðsins, Almannavarnir ríkisins sem nefnd og svo stofnun er gekkst fyrir viðvörunarflautuprófunum tvisvar til þrisvar á ári og safnaði til dæmis teppum og varnargrímum. Meginframfarir í skipulagi almannavarna, sem tóku brátt að snúast fyrst og fremst um náttúruvá, fólust í nýrri Samhæfingarstöð í Reykjavík 2003 og sérlögum um almannavarnir 2008. Umræður um skipurit og stjórnun leiddu til þess að stjórnunarábyrgð lögreglu við aðgerðir í héraði kristallaðist í embætti ríkislögreglustjóra, í umboði dómsmálaráðherra. Nú er unnt að meta reynsluna af framkvæmd og gæðum laganna að rúmum áratug liðnum. Umfang verkefna hefur breyst og aukist, stefnumótun þarfnast endurskoðunar (sem hafin er nú þegar) og nýjar áskoranir augljósar. Við endurskoðunina verður að hafa þétta samráð við þá sem koma að almannavörnum á ölum stigum.
Ég tel að samhæfing björgunar- og hjálparstarfa og stjórnarhlutverks lögreglu í héraði hafi þróast langt í rétta átt, líkt og samstarfið við sérfræðinga á mörgum sviðum. Engu að síður blasir við að mörgum verkefnum er ábótavant, t.d. viðbragðsáætlunum, áhættumati í héraði og sérlega landsáhættumatinu. Nefni eflingu viðbragðsaðila, þjálfun og menntun þeirra, hliðrun á hluta af ofkeyrðum björgunarsveitum úr sjálfboðamennsku yfir í launuð störf. Sums staðar hefur vantað almannavarnarnefndir sveitarfélaga og rannsóknarnefnd almannavarna hefur loksins hafið störf fyrir atbeina ríkisstjórnarinnar.
Verkefni almannavarna er, til upprifjunar, að fylgja stefnu stjórnvalda í almannavarna- og öryggismálum. Þar rúmast eftirlit með skipulagi almannavarna á landsvísu og að áhættumat sé unnið í öllum sveitarfélögum. Dregið skal saman heildaráhættumat fyrir landið í heild og gert aðgengilegt fyrir erlenda samstarfsaðila. Vinna þarf að áhættuvarnaraðgerðum en viðbragðsáætlunum þar sem áhætta er óásættanleg. Viðbrögð og aðgerðir eru samræmdar við hamfarir. Gott samstarf þarf að vera á milli stofnana ríkisins undir samhæfingarhatti almannavarna. Almannavarnir kalla fyrirtæki í eigu ríkis, sveitarfélaga og í einkaeigu til samráðs við gerð áhættumats og vinnu að viðbragðsáætlunum. Til þess að tryggja fagmennsku við gerð áhættumats og mótvægisaðgerða er víðast hvar talið mikilvægt að stofnun eða skrifstofa almannavarna sé sjálfstæð og óháð öðrum stofnunum.
Náttúrvá eykst augljóslega vegna veðurfarsbreytinga. Aðlögun að afleiðingum þeirra jafnt og snör viðbrögð þegar á bjátar snúa að hluta að almannavarnarkerfinu. Stórviðri, snjóflóð, skriðuföll, hrun í bröttum jöklum og sjávarflóð á land verða væntanlega bæði öflugri og algengari en undanfarna áratugi. Aukin hætta er á gróðureldum og Covid-19 veiran kennir okkur eitt og annað. Nefna má hættuna af öflugum eldgosum, eldgosum nærri byggð og stórum jarðskjálftum, í öllum tilvikum miðað við endurkomutíma, sem vísindin leggja okkur til. Aðeins dæmin Öræfajökull, Katla, Bárðarbunga, Reykjanesskagi og Tjörnesbrotabeltið á Norðausturlandi eru til marks um það. Inn í stóra rammann tengjast svo meiri rannsóknir á náttúruvá, efld vöktun, sem er nú að mörgu leyti til fyrirmyndar, og minna verður á endurskoðun og stofnun sjóða, bæði Hamfarasjóðs til fjármögnunar verkefna og Þjóðarsjóðs til að eiga við stóráföll.
Ég styð fast að unnið verði að endurskoðun á almannavörnum landsins. Markmiðið er að auka öryggi okkar með því að vinna að enn betri samhæfingu og meira fé til þátta sem efla skilvirkni, þekkingu, forvarnir og áætlanir. Mikilvægt er að Almannavarnir verði sjálfstæð stofnun, líkt og víðast hvar í N-Evrópu, undir faglegri stjórn og með framkvæmdastjóra og næga starfsmenn en viðbragðsaðilar, allt frá lögreglu, undir stjórn ríkislögreglustjóra, og Landhelgisgæslu til heilbrigðiskerfisins og björgunarsveita, virki sem samhæfð eining. Létta þarf álagi á björgunaraðila sem sinna ýmsum verkefnum öðrum en meðalstórum eða stórum aðgerðum. Í þeim eru sjálfboðaliðar áfram lykilfólk (yfir 4.000 virkir meðlimir) og helstu gerendur. Launaðir viðbragðsaðilar auðljóslega geta sinnt ýmsum verkefnum á vettvangi, svo sem lokunum vega, grunnaðstoð í illviðrum og aðkomu að sumum slysum en einnig ýmsum rekstrarstörfum sem björgunarsveitarfólk sinnir nú í sjálfboðavinnu. Einnig er brýnt að haldið verði áfram að þróa og styrkja starfshætti og skipulag Samhæfingarstöðvarinnar og starfsstöðva og almannavarnarnefnda sveitarfélaganna. Loks verður að kanna vel, og meta gagnsemi þess, að færa almannavarnir landsins undir forsætisráðuneytið til að tryggja virka samhæfingu við gerð áhættumats, stefnumótun og í viðbragðsaðgerðum, enda margar stofnanir og ráðuneyti undir hverju sinni og tengslin við Þjóðaröryggisráðið styrkari en ella. Þetta er umdeild skoðun meðal stjórnmálamanna en ég tel hana hæfa.
Ég fagna sérstaklega nýjum og viðamiklum áætlunum ríkisstjórnarinnar er varða viðbragðsgetu og styrk orkufyrirtækja, síma- og netfyrirtækja og stofnana/fyrirtækja sem varða samgöngur í landinu og raunar margt fleira – og auðvitað þeirri eflingu almannavarnakerfisins sem þar er að finna. Við erum öll á sama báti frammi fyrir verkefnum og samfélagsþjónustu Almannavarna og verðum að tryggja sem besta getu okkar í þeim efnum. Nú er lag.
Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður Vinstri grænna.