PO
EN

Endurskoðun varnarstefnu í yfirvegun og í breiðu samráði

Deildu 

Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar er kveðið á um í einni setningu að „mótuð verði öryggis – og varnarmálastefna“. Nú er sú vinna hafin að sögn utanríkisráðherra í utanríkisráðuneytinu, en ráðherrann hefur að auki boðað að hún vilji tvöfalda fjárframlög til varnarmála en þau fjárframlög eru í dag 0,14% af landsframleiðslu eða rúmir 5 milljarðar króna. Þessi upphæð inniheldur ekki sérstakan stuðning við Úkraínu vegna innrásar Rússa en sá stuðningur nemur 1,5 milljörðum króna en hækkar í 3,6 milljarða á ári samkvæmt tilkynningu frá Stjórnarráðinu þann 24. febrúar síðastliðin. Þar með munu fjárframlög okkar Íslendinga til varnarmála aukast upp í 13,6 milljarða króna á ársgrundvelli miðað við þessar áætlanir ríkisstjórnarinnar.

Það er ljóst að ástand heimsmála um þessar mundir er með þeim hætti að við erum að upplifa vendingar á skipan alþjóðamála og atburði sem okkur hefði ekki órað fyrir. Jafnvel á nokkrum mánuðum þó svo að spenna á alþjóðasviðinu hafi aukist hratt og ískyggilega mikið undanfarin ár.

Það er því skiljanlegt að íslensk stjórnvöld vilji auka fjármuni til öryggis – og varnarmála líkt og önnur Evrópuríki og Norðurlöndin, í þeim sviptivindum sem geisa og óöryggi sem stafar af stefnubreytingu forseta Bandaríkjanna, sem og að auka fjárframlög Íslands til Úkraínu þegar forseti Bandaríkjanna er ekki eins einarður stuðningsmaður Úkraínu og forrenni hans.

Endurskoðun varnarmálastefnu aðeins ári eftir síðustu uppfærslu?

En við mótun á öryggis – og varnarmálastefnu Íslands, sem birtist okkur fyrir sjónum í stjórnarsáttmála mánuði áður en Trump var settur í embætti forseta Bandaríkjanna, er vert að hafa nokkur atriði í huga;

· Í gildi er Þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland sem samþykkt var árið 2016 en fyrir aðeins ári síðan – í febrúar 2024 – voru samþykktar á Alþingi breytingar á þingsályktun um Þjóðaröryggisstefnunni. Útskýra verður því fyrir almenningi og kjósendum af hverju gera eigi sérstaka öryggis – og varnarmálastefnu fyrir Ísland núna ári síðar. Því ástæða breytinganna á Þjóðaröryggisstefnunni fyrir aðeins ári síðan, var ný staða í öryggismálum Evrópu, alvarlegar afleiðingar hernaðar Rússa í Úkraínu og aukin spenna í alþjóðasamskiptum sem kölluðu á aukna “árvekni á fjölmörgum

málefnasviðum sem þjóðaröryggisstefnan tekur til.” Með breytingunum fyrir ári síðan voru tiltekin svið Þjóðaröryggisstefnunnar frá 2016 skýrð betur og lagt var til að Alþingi fæli ríkisstjórninni að fylgja á næstu árum til að tryggja grundvallarhagsmuni þjóðarinnar. Þar var meðal var kveðið á um virkt alþjóðasamstarf á grundvelli alþjóðalaga og með friðsamlega lausn deilumála, virðingu fyrir lýðræðislegum gildum, mannréttindum og réttarríkinu.

· ⁠Sérstök öryggis – og varnarmálastefna fyrir herlaust ríki sem reiðir sig á hervarnir annarra er mjög afdrifarík ákvörðun fyrir herlaust ríki eins og Ísland sem er ekki hægt að vinna bak við luktar dyr. Hafa verður samráð, þó það þurfi ekki að taka eins langan tíma eins og þegar Þjóðaröryggisstefnan var mótuð á sínum tíma, þar sem við erum með stefnu í þjóðaröryggismálum.

· Ísland er herlaust ríki en er aðildarríki í Atlantshafsbandalaingu og með sérstakan varnarsamning við Bandaríkin. Hugmyndir eða pólitísk stefna um öryggis – og varnarmálastefnu og vinna við hana verður að útskýra vel fyrir almenningi af hverju ætlunin er að setja sérstaka stefnu í öryggis – og varnarmálum.

· ⁠Öryggis – og varnarmálastefna Íslands verður að vera gerð á grundvelli her- og vopnleysi Íslands.

· ⁠Við samþykkt Þjóðaröryggisstefnu á sínum tíma var sömuleiðis stofnað Þjóðaröryggisráð en eitt af hlutverkum þess er að meta reglulega ástand og horfur í öryggis – og varnarmálum. Hvert verður hlutverk Þjóðaröryggisráðs með nýrri öryggis- og varnarmálastefnu ? Þetta verður að skýra.

· ⁠Ruglum ekki saman almannavörnum og almannavarnarhlutverki björgunarsveita og ímynduðu hlutverki þeirra við varnir landsins eða hlutverki Landhelgisgæslunnar sem gegnir alls ekki hernaðarhlutverki, þrátt fyrir að hafa mjög afmarkað lögregluvald við sérstakar aðstæður á hafsvæðum í kringum Ísland. Við skulum halda því þannig. Þó einhverjir spekingar gefi annað í skyn.

Þó hlutirnir gerist hratt, verðum við að vanda vinnu við svona veigamiklar breytingar á utanríkismálum eins og boðað er. Við verðum að gera það í upplýstu og vönduðu samráðsferli við fulltrúa almennings og sérfræðinga og á grunni alþjóðlegra skuldbindinga Íslands og alþjóðasamninga okkar. Með mannréttindi, lýðræði og friðsamlegar lausnir að leiðarljósi, því sérstaða Íslands er og verður að vera herlaust ríki sem talar fyrir friðsamlegum lausnum í hvívetna.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, fyrrverandi þingmaður og varaforseti Evrópuráðsins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu þann 15. mars, 2025

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search