Search
Close this search box.

Er rétt að dæma fólk í fangelsi fyrir pólitískar skoðanir?

Rósa Björk

Deildu 

Þungir fangelsisdómar voru kveðnir voru upp í síðustu viku af Hæstarétti Spánar yfir níu leiðtogum sjálfstæðishreyfingar Katalóníu. Fólkið var dæmt til 9-13 ára fangelsisvistar vegna aðgerða þeirra í tengslum við atkvæðagreiðslu um sjálfstæði Katalóníu árið 2017 og sjálfstæðisyfirlýsingar í kjölfarið. Níumenningarnir voru sakfelldir fyrir ólöglegan uppreisnaráróður og misnotkun á opinberu fé í þágu sjálfstæðrar Katalóníu. Það er hægt að hafa sterka skoðun á þessum þungu dómum án þess að skipta sér í raun af því hvort Katalónar eigi að vera sjálfstæðir eða ekki. Það á að vera lýðræðisleg ákvörðun íbúanna sjálfra í Katalóníu og fyrirkomulagið á því efni viðræðna við Spán. Og þrátt fyrir að hægt sé að líta svo á að dómarnir samræmist stjórnarskrá Spánar, þá er ekki hægt að horfa á mál þar án samhengis við söguna og hvernig stjórnarskráin varð til fyrir 40 árum í kjölfar dauða Francos, einræðisherra Spánar og hans blóði drifnu valdatíðar. Fangelsi fyrir friðsamlega baráttu Katalónar hafa ávallt haft að leiðarljósi að krefjast sjálfstæðis með friðsamlegum leiðum. Önnur sjálfsstjórnarhéröð hafa barist fyrir meira sjálfsforræði, líkt og Katalónía. Skemmst er að minnast baráttu ETA-samtakanna í Baskahéraði sem börðust fyrir sjálfstæði Baska á mjög ofbeldisfullan hátt. Það hafa Katalónar ekki gert í sinni sjálfstæðisbaráttu, heldur notað friðsamlegar aðferðir. Það er því einmitt þess vegna sem dómarnir þungu eru svo illskiljanlegir. Margra ára dómar yfir fólki sem eru lýðræðislega kjörnir fulltrúar sem vilja það eitt að fá að kjósa um sjálfstæði Katalóníu. Eða fá margra ára fangelsisdóm fyrir það eitt að leyfa umræður í katalónska þinginu um sjálfstæði héraðsins. Að auki voru tveir fulltrúar almannasamtaka sem hafa haft sjálfstæði Katalóníu sem helsta baráttumál sitt, líka dæmdir í langt fangelsi. Stóra hættan nú með dómunum er að friðsamleg barátta snúist upp í ofbeldisfyllri baráttu. Það er með miklum ólíkindum að slíkir dómar séu kveðnir upp í frjálsu, lýðræðisríki í Evrópu árið 2019. Enda hafa mörg hundruð þúsund íbúar héraðsins nú mótmælt dómunum á götum úti. Leiðtogar Katalóna hafa líka kallað eftir viðbrögðum og stuðningi frá alþjóðasamfélaginu og það er mín einlæga skoðun að íslensk stjórnvöld, þingmenn eða aðrir kjörnir fulltrúar, eiga að þora að láta í ljós andúð sína á þessum dómum yfir lýðræðislega kjörnum fulltrúum. Afbökum ekki lýðræðið. Stöndum vörð um tjáningar – og skoðanafrelsið. Rósa Björk Brynjólfsdóttir, varaformaður utanríkismálanefndar Alþingis og varaforseti Evrópuráðsþingsins.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search