Search
Close this search box.

Erfiða konan

Deildu 

Í störfum þingsins í gær, þriðjudaginn 24. janúar, ræddi ég um erfiðu konuna, eins konar hlutgervingu þeirrar smánunar sem konur sem að taka pláss þurfa að sitja undir.

Orðræðan um erfiðu konuna er þekkt kúgunartæki sem byggir á löngu útrunnum hugmyndum kynjatvíhyggjunnar og eðlishyggjunnar þar sem fólk hefur mismunandi hlutverk í samfélaginu byggt á kyni.

Þannig er karlmönnum eðlislæg skynsemi og gagnrýni en konum tilfinningasemi og taugaveiklun. Karlar eiga heima í atvinnulífi, græða á daginn og grilla á kvöldin á meðan aðþrengdar eiginkonur þeirra sinna þjónustustörfum og umönnun aldraðra og barna.

Það er þyngra en tárum tekur að endurtaka þennan reiðipistil á því „herrans“ ári 2023. Það er þó ekki þannig að ekkert hafi áunnist í jafnréttismálum.

En betur má ef duga skal og mikilvægt að minna á hvaðan við erum að koma. Fortíðin er bara hinum megin við næfurþunna skánina sem er áunnin réttindi þeirra sem hafa þurft að lúta í lægra haldi fyrir feðraveldinu í aldanna rás.

Karlmenn leiðtogar en konum refsað

Og stundum vellur óræstið upp á yfirborðið, sjálf hef ég oft þurft að sitja undir þeim ranghugmyndum að á bak við sjálfan forsætisráðherra séu það raunverulega karlkyns ráðherrar sem sitji við stjórnvölinn.

Upplegg ræðu minnar í gær var stuðningsyfirlýsing samtaka kvenna í kvikmynda- og sjónvarpsiðnaðinum á Íslandi, WIFT: „Karlmenn sem gera kröfur til samstarfsfólks eru leiðtogar. Konum er refsað fyrir sömu kröfur. Þær eru jafnvel flokkaðar sem erfiðar að vinna með.“

Þetta nýlega dæmi sýnir okkur að við megum aldrei sofna á verðinum þegar kemur að jafnrétti og kvenvirðingu. Að þó að við höfum náð langt í því að segja feðraveldinu til syndanna þá er stutt í orðræðuna um „erfiðu konuna“. Við verðum að gera þá kröfu að sú stétt sem um ræðir og aðrar stéttir sem enn eru að meirihluta karlmenn, séu ekki undanskildar jafnrétti kynjanna.

Jódís Skúladóttir, alþingismaður

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search