Á síðustu árum hefur almenn umræða um andlega heilsu aukist og er það ekki að ástæðulausu. Lengi voru geðheilbrigðismál feimnismál og fólk sem var veikt á geði upplifði skömm. Vinstri græn í Árborg vilja stórauka fræðslu og forvarnir um geðheilbrigði í skólum sveitarfélagsins.
Þessi þróun er vissulega jákvæð og á réttri leið, yngri kynslóðin er að læra að tala um og skilja tilfinningar sínar, efla sjálfsmynd og leita aðstoðar ef þörf er á.
Unglingsárin eru ár mótunar og það er mikilvægt að unglingarnir okkar finni fyrir góðum stuðningi í nærumhverfi sínu. Þess vegna er mikilvægt að þau upplifi gott aðgengi að fagfólki. Það er nógu stórt skref fyrir mörg okkar að ákveða að leita aðstoðar og ekki á bætandi að þurfa að bíða á biðlistum í marga mánuði. Það er mikilvægt að grípa inn í snemma, gefa unga fólkinu okkar verkfæri til að takast á við lífið og þau áföll og óvissu sem því fylgir.
Þetta mun ekki bara skila sér í heilbrigðari, hamingjusamari einstaklingum heldur munu þessir sömu einstaklingar koma til með að gefa af sér út í samfélagið í framtíðinni. Vinstri græn leggja ríka áherslu á jafnrétti kynjanna. Þar hafa konur verið í aftursætinu frá upphafi. En þegar kemur að geðheilsu, þá má ekki gleyma drengjunum okkar. Tölfræðin sýnir skýrt að sjálfsvíg ungra karlmanna eru alltof algeng. Sú eitraða karlmennska sem ríkt hefur í samfélaginu lýsir sér oft í orðræðu sem við tökum ekki endilega eftir. „Harkaðu þetta af þér”. „Ekki gráta”. „Ekki vera aumingi” eru setningar sem hafa ómað inn í skólum og búningsklefum landsins í áratugi.
Við viljum leggja áherslu á að gefa drengjunum okkar verkfærin til þess að tjá tilfinningar sínar og leita réttra leiða þegar þeir upplifa vanlíðan af einhverju tagi. Við sem erum á lista Vinstri grænna í Árborg gerum okkur grein fyrir mikilvægi forvarna, fræðslu og faglegrar aðstoðar í geðheilbrigðismálum. Þess vegna leggjum við áherslu á að aukið fjármagn verði sett í þennan málaflokk til að stuðla að geðheilbrigði ungs fólks í sveitarfélaginu.
Guðrún Runólfsdóttir, skipar 5. sæti á lista Vinstri grænna í Árborg.