Umræða um fæðuöryggi á Íslandi hefur færst ofar á dagskrá stjórnvalda síðustu misseri. Bæði í heimsfaraldri kórónuveiru og í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu hafa vaknað spurningar um öryggi flutninga til landsins og aðfangakeðjur. Forsætisráðherra skipaði starfshóp í mars á þessu ári sem fjallaði um nauðsynlegar birgðir til þess að tryggja lífsafkomu þjóðarinnar á hættutímum. Matvælaráðuneytið átti fulltrúa í þeim hópi, enda heyra mikilvægir þættir fæðuöryggis undir matvælaráðuneytið.
Orkuskipti eru forsenda fæðuöryggis
Í skýrslunni er fjallað heildstætt um þá öryggisþætti sem þarf að treysta á Íslandi. Ætla má að birgðir af jarðefnaeldsneyti séu veikasti hlekkurinn en skv. skýrslunni eru oft ekki til meira en 3-5 vikna birgðir. Án jarðefnaeldsneytis flytjum við engin matvæli milli staða og togarar liggja bundnir við bryggju. Þá er einnig ljóst að landbúnaður er háður innflutningi á áburði og fóðurkorni. Án hnökralausra flutninga getur matvælaframleiðsla dregist hratt saman hérlendis. Við búum svo vel á Íslandi að eiga endurnýjanlega orku og því eru frekari orkuskipti augljóst næsta skref. Miðað við hraðar framfarir í orkumiðlun má ætla að innan einhverra ára verði raunhæft að knýja togara með rafeldsneyti og nú þegar eru til dráttarvélar sem ganga fyrir nýorku á borð við metan.
Innviðir fyrir kornrækt eru öryggismál
Samhliða því að halda áfram orkuskiptum, þurfum við að byggja upp nauðsynlega innviði til þess að efla kornrækt. Slíkir innviðir eru síst minna mikilvægir heldur en öruggir samgönguinnviðir, hafnir og flugvellir. Aðgerðaáætlun um að efla kornrækt er í vinnslu hjá Landbúnaðarháskóla Íslands og er væntanleg í mars á næsta ári. Ljóst er að til þess að kornrækt geti vaxið á skynsamlegan hátt þarf að tryggja að hún byggist upp á þeim svæðum sem henta best til kornræktar. Við höfum nýleg dæmi úr sögunni þar sem stjórnvöld hlutuðust um að byggja upp búgreinar án þess að hugsa út í hvar slík uppbygging ætti helst að fara fram. Þá hef ég í hyggju að ræða við bændur um uppskerutryggingar á korni og hvernig megi útfæra þær við endurskoðun búvörusamninga. En eins og dæmin sanna úr Eyjafirði má ætla að áhættan við ræktun dragi úr áhuga bænda, sé engin leið að tryggja lágmarksafkomu. Slíkar tryggingar þekkjast, þótt þær séu ekki almennar í þeim löndum sem við berum okkur saman við.
Ég hef mikla trú á tækifærunum sem felast í aukinni kornrækt á Íslandi. Til þess að grípa þau tækifæri er mikilvægt að ryðja úr vegi hindrunum sem felast í okkar eigin kerfum auk þess að byggja upp nauðsynlega innviði.
Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra.