Search
Close this search box.

Fagnám fyrir sjúkraliða og fjölgun nema í hjúkrunarfræði

Deildu 

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í dag tillögu Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra og Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, um að fela Háskólanum á Akureyri að koma á fót fagnámi fyrir sjúkraliða á háskólastigi. Ákvörðunin er byggð á niðurstöðum starfshóps sem heilbrigðisráðherra skipaði til að gera tillögur um menntun og viðbótarmenntun sjúkraliða sem leitt geta til fjölgunar þeirra sem útskrifast í þessu fagi. Á fundi sínum samþykkti ríkisstjórnin einnig tillögu ráðherranna sem snýr að fjölgun nema í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri um tuttugu við hvorn skóla.

Fleiri komist í hjúkrunarfræðinám

Tillagan sem samþykkt var á ríkisstjórnarfundinum í dag um menntun hjúkrunarfræðinga byggist á því að Háskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri verði gert kleift að fjölga nemendum um 40 samtals.Annars vegar er um að ræða tveggja ára nám til BS prófs í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands fyrir fólk sem hefur lokið öðru háskólaprófi og hins vegar fjölgun nemenda í grunnnámi til BS prófs við Háskólann á Akureyri „Samhliða þessu vinnur heilbrigðisráðuneytið að því í samvinnu við stjórnendur heilbrigðisstofnana að fjölga námsstöðum fyrir hjúkrunarfræðinema því þetta tvennt verður auðvitað að haldast í hendur,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.

Fagnám fyrir sjúkraliða

Á síðustu árum hafa 90-100 sjúkraliðar brautskráðst ár hvert en áætlað er að um  helmingur þeirra sem útskrifast starfi við fagið. Fram kemur í skýrslu starfshópsins að framhaldsnám hefur ekki staðið sjúkraliðum til boða undanfarin þrjú ár. Námið við Háskólann á Akureyri verður 60 ECTS einingar og er markmiðið að unnt verði að sinna kennslu fyrir 20 nemendur á ári. Áætlaður kostnaður við að koma náminu á fót eru rúmar 90 milljónir kr. á næstu tveimur árum.

Markmið með þróun háskólanáms er að auka fjölbreytni í námi, bregðast við síbreytilegum vinnumarkaði og stuðla að nýsköpun með hagsmuni nemenda og samfélags að leiðarljósi. Mannauður ber uppi okkar mikilvægu velferðarkerfi og því er brýnt að trygga framtíðarmönnun þeirra,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Sjúkraliðar gegna mikilvægu hlutverki í heilbrigðisþjónustunni og það er mikil þörf fyrir fólk með þessa menntun til starfa. Ein leið til að bregðast við er að veita sjúkraliðum aukin tækifæri til starfsþróunar, meðal annars með markvissu framhaldsnámi eins og hér um ræðir, líkt og starfshópurinn lagði til. Ég tel þetta mikilvægt skref,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search