Search
Close this search box.

Faraldur ekki fyrirsjáanlegur

Deildu 

   Veirur eru sérkennileg fyrirbæri í náttúrunni. Eru lítið annað en sérstök efnasambönd en samtímis ólíkindatól sem fjölga sér og geta stökkbreyst. Sjúkdómsveirur í mönnum hafa fylgt okkur frá ómunatíð. Nýjar koma fram á tímaskala einnar kynslóðar. Flókin ferli hafa valdið því að veirur úr öðrum lífverum en mönnum hafa náð að færast þaðan í menn um fleiri en einn hýsil. Sumar eru lífshættulegar og þær geta breyst hratt við síendurtekna meðgöngu í alls konar lífverum. Aðlagast ónæmiskerfum þeirra og jafnvel orðið skæðari en áður. Með hraðri fjölgun í mannheimum, miklum samskiptum milli manna og vegna sífellt meiri ásóknar í fæðu úr dýraríkinu minnkar hættan af veirum alls ekki. Þvert á móti.

   Þessar upplýsingar eru vel þekktar og ættu að vera flestum kunnar. Líka sá vandi að veirufaraldur lýtur ekki stjórn manna, nema að litlu leyti. Ekki fremur en tiltölulega saklausa eldgosið í Geldingadölum. Viðbrögð við þessum náttúruferlum helgast af breytilegum, ófyrirséðum aðstæðum og þeim gögnum sem safnast við framvinduna. Fyrirsjáanleiki eldvirkni er ef til vill dálítið meiri en frammi fyrir covid-19 en jafn augljóslega hverfandi lítill, horfi menn lengra en til einnar viku – eða tveggja við bestu skilyrði.

   Það gefur auga leið að veirufaraldur er ákveðin tegund af náttúruvá. Vegna eðli veira, og þekkingar t.d. á veirum sem valda einkennum coivid-19, og vegna ólíkra aðstæðna í samfélögum heims, eru kröfur um fyrirsjáanleika í sóttvörnum, efnahagsmálum og hegðunarreglum vegna sóttvarna meira en langsóttar nú um stundir. Jöfn og þétt endurskoðun aðgerðra er undirstöðuatriði í vástjórnun. Kröfur um „skýrar langtímaáætlanir“ eru því miður óábyrgar, pólitískar loftskylmingar sem ekki eiga heima í glímunni við veiruna. Þær veikja baráttuna og grafa undan þekkingu og vísindum sem eru undirstaða sóttvarna ásamt samstöðu þeirra sem framkvæma sóttvarnirnar – þ.e. sérfræðinga, stjórnvalda og almennings. Þær eru pólitísk hentistefna eða óraunhæfar kröfur hagsmunaaðila.

   Öllu tali um frelsi og lýðréttindi verða að fylgja orð um ábyrgð og samstöðu í því augnamiði að öryggi og heilsa einstaklinga gangi fyrir. Gagnrýni er sjálfsögð en hlýtur að innihalda hlutlægt mat á jafnvægi milli vísindalegrar þekkingar, stjórnmála og hagsmuna og réttinda almennings, ef hún á að heita málefnaleg. Ég tel sóttvarnarteymi og stjórnvöld hafa staðið sig vel og náð því marki að fara bil þess sem máli skiptir.

   Flestar aðgerðir vegna covid-19 faraldursins hafa réttilega verið endurskoðaðar jafnt og þétt. Þeim er ekki ætlað að gilda til langframa hverju sinni, enda óvissuþættir margir og breytilegir. Nefna má þróun og betrumbætur bóluefnis, lengd faraldursins á heimsvísu (enginn er eyland!), áhrif hans á samskipti ríkja og efnahag þeirra á næstunni, og þróun veirunnar sjálfrar á meðan faraldurinn geisar. Visslega er þungur róður að höndla ágjöfina og verða sífellt að gæta að því að meta kosti og galla ákvarðana sem taka til fyrrgreindra þátta. Urmæður og rökstudd gagnrýni á að miða að því að lágmarka mistök en líka tjónið af veirunni. Áskorunin er sambærileg við alvarlega en annars konar náttúruvá sem öll heimsbyggðin getur orðið fyrir, t.d. hamfaragosi og afleiðingar þess í nokkur ár. Enginn þegn og ekkert fyrirtæki er stikkfrí. Öryggi borgaranna telst í forgangi.

  Í umræðunni um covid-19 er iðulega gert lítið úr sjúkdómnum og áhrifum hans. Honum líkt við inflúensu eða kvef. Enn eru þá pólitískar loftskylmingar í forgangi, ekki raunveruleikinn. Í sumum tilvikum hótfyndni eða hálfkæringur, jafnvel þekkingarskortur. Persónuleg  eftirköst smitaðra, sum mjög alvarleg og langæ, eru margvísleg og þekkt. Langvinn lega hundraða manna á sjúkrahúsum er þekkt. Álag á samfélagið vegna fjarvista sýktra í einangrun og fjarvista annarra í sóttkví er þekkt. Álag á heilbrigðiskerfið sem torveldar aðra og afar mikilvæga heilbrigðisþjónustu er þekkt. Persónulegt álag á heilbrigðisstarfsfólk, og fólk í uppeldis- og umönnunarstörfum, er þekkt og um margt ómannlegt. Umgengnistakmarkanir í daglegu lífi okkar eru þekktar. Aukin smithæfni veirunnar er þekkt. Fælingamáttur veirunnar í ferðaþjónustu er þekkt. Allt bætist þetta við almennan vanda sem stafar af hættuminni veirustofnum flensunnar – væntanlega til langs tíma. Bólusetningar og forvarnir eru meðalið við veirunni sem er komin til að vera og geta væntanleg gert að verkum að mannlífið nær mjög líkum skorðum og fyrir voru – með tíð og tíma. 

   Látum okkur fagna því sem hefur áunnist í sóttvörnum og endurreisn atvinnulífs og afléttingu þyngstu umgengnisreglna þegar horft er til covid-19 skeiðsins í heild. Komum sóttvörnum með skipulagsbreytingum í hendur fleiri, sem best til þekkja, svo vinnan og ábyrgðin á stjórnun og utanumhaldi, rannsóknum og forvörnum dreifist. Það er þakklætisvottur til þeirra sem staðið hafa fremst um hríð en að auki nauðsyn svo efla megi þennan þátt almannavarna. Auk ráðuneytis heilbrigðismála gætu sýkla- og veirufræðideild Landspítalans, Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, Landlæknisembættið með sitt sóttvarnarsvið og sóttvarnarlækni innanborðs, Decode og eflaust fleiri aðilar eða stofnanir fundið lausn á aukinni samhæfingu sóttvarna og almannavarna.

Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður VG

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search