Önnur áramót í faraldri eru runnin upp og landsmenn allir orðnir lúnir á veirunni skæðu. En þrátt fyrir bakslag skulum við hafa hugfast að margt hefur gengið okkur í haginn í þessari baráttu. Bólusetningar hafa gengið vel og veita góða vörn gegn alvarlegum veikindum. Samstaða hefur verið um að leggja traust á vísindin og setja líf, heilsu og velferð í forgrunn. Markvissar stuðnings- og vinnumarkaðsaðgerðir stjórnvalda og fjárfestingar sem leggja munu grunn að verðmætasköpun til framtíðar hafa skilað sér í mun betri stöðu efnahags- og atvinnulífs en útlit var fyrir framan af.
Sú mikilvæga pólitíska ákvörðun var tekin að þrátt fyrir umtalsverðan halla á ríkissjóði myndum við standa vörð um þá uppbyggingu sem hefur átt sér stað innan heilbrigðis-, velferðar- og menntakerfis á undanförnum árum. Við höfum alla burði til að vaxa til aukinnar velsældar með aukinni áherslu á verðmætasköpun nýrra tíma. Velsældarmælikvarðar munu mæla lífsgæði og hagsæld í mun víðara samhengi en hinn hefðbundni mælikvarði landsframleiðslu og hagvaxtar og velsældaráherslur birtast í fjármálaáætlun stjórnvalda.
Við munum efla verðmætasköpun með því að halda áfram að efla og styrkja umhverfi rannsókna, nýsköpunar og skapandi greina og búa til jarðveg fyrir nýjar grænar atvinnugreinar sem byggjast á hugviti og tækniþróun. Mikil sóknarfæri eru í eflingu innlendrar matvælaframleiðslu og þar er fjölbreytni lykilatriði. Ferðaþjónusta, margar þjónustugreinar og skapandi greinar hafa orðið fyrir þungu höggi vegna heimsfaraldurs og stjórnvöld munu áfram styðja við þær.
Velsæld og verðmætasköpun munu verða grunnstef í öllum okkar aðgerðum gegn loftslagsvánni sem eru græni þráðurinn í allri stefnumótun stjórnvalda. Það þýðir að aðgerðir munu byggja á jöfnuði og réttlátum umskiptum og hugvit og þekking verða nýtt til hins ítrasta til að ná árangri í stærsta viðfangsefni alls mannkyns. Þar á Ísland að skipa sér í fremstu röð með metnaðarfullum og raunhæfum markmiðum sem skila raunverulegum árangri.
Ég óska landsmönnum öllum farsældar á nýju ári.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 31. desember 2021.