Search
Close this search box.

Farsælt skref í rétta átt

Deildu 

Mikil umræða hefur verið í samfélaginu undanfarin ár vegna „jarðasöfnunar“ einstaklinga og félaga hér á landi. Um margra ára skeið hefur verið bent á þær hættur sem fólgnar eru í því að grípa ekki inn í og stöðva þessa þróun.

Á lokadögum Alþingis í júní s.l. voru samþykkt lög sem er meðal annars ætlað að stöðva slík jarðauppkaup. Þar er einnig kveðið á um að kaupverð jarða verði gefið upp við þinglýsingu kaupsamninga en frumvarpið var unnið að frumkvæði Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra.

Í samræmi við þær ábendingar sem settar hafa verið fram á undanförnum árum um neikvæð áhrif jarðasöfnunar tókst að leiða í lög nauðsynleg ákvæði sem hafa það að markmiði að stuðla að því að landbúnaður geti þrifist með eðlilegum hætti. Í því sambandi má nefna að bændur sem eru leiguliðar eru í mikilli óvissu með að þróa sinn rekstur. Þeir eru háðir veðleyfum frá landeigendum og þannig getur samþjöppun eignarhalds á landi hamlað eðlilegri þróun landbúnaðarins sem atvinnugreinar.

Dreift eignarhald á landi er mun líklegra til að þjóna þeim sjálfsögðu þörfum samfélagsins að tryggja fæðuöryggi fólks eins vel og kostur er. Fæðuöryggi er jú einn mikilvægasti hornsteinn sjálfstæðis þjóða og því er varhugavert að örfáir einstaklingar ráði yfir svo miklu landi að það sé háð duttlungum þeirra hvort viðkomandi land nýtist samfélaginu til að tryggja fæðuöryggi og þar með sjálfstæði.

Ein megin ástæða samþjöppunar þeirrar sem orðið hefur á eignarhaldi á landi er að viðkomandi aðilar ásælast ýmis hlunnindi sem fylgja ýmsum jörðum. Í því sambandi hefur mest borið á þeim sem ásælast laxveiðihlunnindi. Einnig er um að ræða ýmiskonar önnur veiðihlunnindi s.s. silungsveiði og skotveiði. Ljóst er að mikil eftirspurn eftir jörðum sem ráða yfir hlunnindum hækkar verð viðkomandi jarða og dregur þar með úr möguleikum þeirra sem vilja stunda búskap að kaupa slíkar jarðir. Þá sérstaklega þeirra sem vilja hefja búskap. Önnur hlunnindi/landgæði sem sóst hefur verið eftir er aðgangur að vatni sem mögulegt er að virkja. Jafnframt hefur ásókn í land sem vel er fallið til ýmiskonar ferðaþjónustu aukist verulega sem og eftirspurn eftir landi þar sem möguleikar eru á vindraforkuverum.

Það sem hér að framan hefur verið rakið styður að mínu mati að hömlur eigi að vera á jarðasöfnun og er einnig mikilvægt til þess að halda landinu í byggð og að þau gæði sem landið býr yfir séu nýtt til búsetu og skapi fólki möguleika á lífsviðurværi.

Auk framangreinds er ákvæði um að upplýsa skuli verð jarða við eigendaskiptimikilvægt í því sambandi að koma betra skipulagi á fasteignamat bújarða. Þar með skapast möguleiki  á því að skattleggja með réttlátari hætti þessar eignir og að landeigendur greiði eðlilega þóknun til nærsamfélagsins fyrir þá þjónustu sem sveitarfélögin bjóða upp á óháð búsetu eigendanna. Það er óréttlátt að eigendur greiði fyrir fasteignamat upp á nokkra þúsundkalla fyrir jarðir sem seldar voru fyrir hundruð milljóna.

Ég tel að þetta sé farsælt skref sem hér var stigið og verði til að efla búsetu og ræktun til sveita.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search