Search
Close this search box.

Farsóttarþreyta

Deildu 

Þegar við heyrðum fyrst af nýju af­brigði kór­ónu­veiru um eða rétt eft­ir síðustu ára­mót, sáum við lík­lega fæst fyr­ir okk­ur að í nóv­em­ber 2020 hefðu aðgerðir yf­ir­valda til að sporna við dreif­ingu veirunn­ar enn af­ger­andi áhrif á okk­ar dag­lega líf.

Eft­ir því sem á líður heims­far­ald­ur upp­lif­ir al­menn­ing­ur sótt­varnaaðgerðir yf­ir­valda smám sam­an meira íþyngj­andi og smám sam­an minnk­ar áhugi fólks á að fylgja sótt­varna­leiðbein­ing­um. Þessu sam­fé­lags­ástandi má lýsa með einu orði; far­sótt­arþreyta.

Far­sótt­arþreyta get­ur einnig haft bein áhrif á líðan fólks og aðstæður, og get­ur til dæm­is leitt til fjölþættra áhrifa á dag­legt líf. Hreyf­ing minnk­ar, svefn verður óreglu­leg­ur, mataræði síðra, streita eykst og meiri hætta er á fé­lags­legri ein­angr­un og ein­mana­leika. Áhrif­in geta einnig fal­ist í auknu of­beldi, auk­inni fá­tækt, auknu at­vinnu­leysi og aukn­um geðheil­brigðis­vanda. Þess­ara áhrifa far­sótt­arþreyt­unn­ar gæt­ir víða hér á landi nú þegar, og Covid-19-far­ald­ur­inn er söku­dólg­ur­inn.

Vís­bend­ing­ar eru um að far­sótt­arþreyta fær­ist í vöxt í Evr­ópu. Brýnt er að bregðast við þessu ástandi og vernda jafn­framt þann ár­ang­ur sem náðst hef­ur með sótt­varnaaðgerðum, um leið og við hlú­um að bæði and­legri og lík­am­legri heilsu al­menn­ings. Alþjóðaheil­brigðismála­stofn­un­in (WHO) hef­ur vakið máls á far­sótt­arþreyt­unni og skaðleg­um af­leiðing­um henn­ar og lagt til að stjórn­völd geri allt sem í þeirra valdi stend­ur til að virkja al­menn­ing og hvetja til þátt­töku í sótt­varnaaðgerðum á já­kvæðan hátt. Einnig að stjórn­völd stuðli að gegn­sæi í aðgerðum og sjái til þess að þær séu eins fyr­ir­sjá­an­leg­ar og kost­ur er og að skilj­an­legt sé hvaða rök­semd­ir búi að baki þeim. Að mati WHO er einnig mik­il­vægt að fylgj­ast með líðan fólks á þess­um for­dæma­lausu tím­um og byggja aðgerðir á gögn­um.

Íslensk stjórn­völd og við í heil­brigðisráðuneyt­inu erum sér­stak­lega meðvituð um þessi óbeinu áhrif Covid-19 á geðheilsu og líðan fólks. Líkt og Alþjóðaheil­brigðismála­stofn­un­in hef­ur haldið fram er áreiðan­leg grein­ing á stöðunni for­senda þess að við get­um brugðist við þess­um vanda. Heil­brigðisráðuneytið og embætti land­lækn­is hafa frá upp­hafi far­ald­urs­ins vaktað líðan al­menn­ings í nánu sam­ráði við heil­brigðis­stofn­an­ir og not­end­ur heil­brigðisþjón­ustu, ekki síst þau sem búa yfir eig­in reynslu af geðheil­brigðisþjón­ustu. Nú á dög­un­um voru að til­lögu land­lækn­is auk þess sett­ir á lagg­irn­ar tveir stýri­hóp­ar; ann­ars veg­ar hóp­ur sem vakt­ar óbein áhrif Covid-19 á lýðheilsu og hins veg­ar hóp­ur sem vakt­ar óbein áhrif Covid-19 á geðheilsu.

Við þurf­um að halda vöku okk­ar áfram og ég er viss um að vinna stýri­hóp­anna mun nýt­ast vel í okk­ar flóknu bar­áttu við veiruna og bein og óbein áhrif henn­ar.

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search