Það ríkja fátæktarfordómar á Íslandi. Ekki einungis hjá þeim sem eiga nóg heldur sannarlega líka hjá þeim sem búa við fátækt. Þar væri betra orð jafnvel fátæktarskömm og við vitum öll að ef við skömmumst okkar fyrir eitthvað þá getur verið ótrúlega niðurlægjandi að þurfa að biðja um aðstoð.
Þetta þarf ekki að vera svona flókið, við eigum ekki að þurfa að biðja um það sem við eigum rétt á. Við ættum að geta bara hakað í box á Mínum síðum á heimasíðu sveitarfélagsins og réttindi okkar birtust sjálfkrafa.
Tökum dæmi:
Foreldrar sem slíta samvistum þurfa að fara með tilkynningu þess efnis til að geta óskað eftir niðurgreiðslu á leikskólagjöldum fyrir einstæða foreldra. Tilkynningin þarf að fara á réttan stað og til réttrar manneskju einmitt á þeim tíma þegar foreldrarnir eru í viðkvæmri stöðu sem þau vilja ekki endilega ræða eða tilkynna ókunnugum um. Auk þess átta mörg þeirra sig ekki á því að þau eigi rétt á því að greiða lægri leikskólagjöld. Þarna væri svo gott að geta bara farið á Mínar síður, haka í Einstæð/ur og upp kæmu öll réttindi.
Við vitum nefnilega að þetta er hægt. Þegar boðið var upp á sérstakan styrk til íþrótta- og tómstundastarfs barna á tekjulágum heimilum var það til dæmis mjög aðgengilegt. Öll gátu skráð sig inn á island.is og séð þar á örskotstundu hvort þau ættu rétt á slíkum styrk eða ekki – mikið gagnsæi.
Ég er ekki einungis að tala um niðurgreiðslur einstæðra foreldra, líka hverskyns styrki eða fjárhagsaðstoð sem fólk getur átt rétt á. Það er engin sem segir fólki frá þeim réttindum sem þau eiga rétt á t.d. við skyndileg eða langvarandi veikindi og það er bæði tímafrekt og slítandi að kafa blint ofan í þann pytt auk þess að í þeim málum sem snúa að sveitarfélaginu sitja ekki allir íbúar við sama borð því upplýsingar á heimasíðu Fjarðabyggðar eru einungis aðgengilegar á íslensku.
Aldrei ætti fjárhagsstaða heimilis að bitna á börnunum okkar en það er samt staðreynd sem við lifum við. Tómstundir barna ættu að vera niðurgreiddar í samræmi við tekjur heimilis og hægt að sækja um hana rafrænt og á einfaldan hátt.
Nú hefur það tíðkast innan sveitarfélagsins að börn missi pláss í leikskóla vegna vangoldinna leikskólagjalda. Telur fólk að hag barnanna sé þá betur borgið heima? Að foreldrar sem standa svo illa fjárhagslega að þeir geta ekki greitt leikskólagjöldin geti boðið upp á næringarríkt fæði heima fyrir? Að möguleikar foreldra til að komast út úr fjárhagsvanda aukist við það að vera með barn heima yfir daginn? Að börn í þessari stöðu standi svo ofboðslega vel félagslega, andlega og líkamlega að hag þeirra sé betur borgið heima en innan um jafnaldra í leik og starfi? Ég held að við vitum öll svarið.
Börn hafa ekkert val um þær aðstæður sem þau fæðast inn í eða alast upp við auk þess að aðstæður fólks geta breyst ansi snögglega og án þess að þau fái neitt við ráðið. Hér ætti áherslan að vera alfarið á hag barnanna, að öll börn samfélagsins hafi tækifæri til að lifa góðu lífi, að börnum sé ekki mismunað og að börn upplifi ekki jaðarsetningu vegna fjárhagsstöðu foreldra.
Anna Sigrún Jóhönnudóttur situr í 3. sæti lista VG í Fjarðabyggð