Search
Close this search box.

Fatlað fólk er alls konar

Deildu 

Nú stendur yfir fundaröð á vegum Öryrkjabandalags Íslands og Þroskahjálpar um land allt. Um er að ræða opna fundi með framboðum til sveitarstjórnarkosninga um stöðu fatlaðs fólks í sveitarfélögum.

Þann 2. maí síðastliðinn var slíkur fundur haldinn í Valhöll á Eskifirði þar sem staða fatlaðs fólks í Fjarðabyggð var til umræðu. Að loknum erindum ÖBÍ og Þroskahjálpar fengu öll framboð tækifæri til að kynna sínar áherslur.

Málefni fatlaðs fólks eru okkur í VG í Fjarðabyggð mjög mikilvæg og til þess að stuðla að aukinni umræðu deilum við hér með ykkur framsögu VG í Fjarðabyggð frá fundinum:

Góðan daginn, ég heiti Guðlaug Björgvinsdóttir og skipa 12. sæti á lista VG í Fjarðabyggð í komandi sveitarstjórnarkosningum. Það er nú sennilega ekki oft sem fólk svo neðarlega á lista tekur sæti í pallborði en ég var einlæglega hvött til að gera það í dag. Okkar málefni eru mér mikið hjartans mál og það vita þau sem starfa með mér.

Mig langar að byrja á að þakka ykkur kærlega fyrir ykkar erindi, að bjóða okkur hingað og skapa þennan umræðuvettvang.

Þegar málefni fatlaðs fólks eru til umræðu er mikilvægt að átta sig á því bæði hversu fjölmennur en einnig hversu fjölbreyttur hópurinn er. Innan skilgreiningar fötlunar rúmast öll þau sem glíma við langvarandi líkamlegar, andlegar eða vitsmunalegar skerðingar eða skerta skynjun sem getur komið í veg fyrir fulla og árangursríka samfélagsþátttöku til jafns við annað fólk. Ég get því sagt að þó að ég beri þess ekki merki þá stend ég hér frammi fyrir ykkur í dag – háskólamenntuð, 30 ára, fötluð kona – og þetta er í fyrsta skipti sem ég segi það upphátt.

Í almennri umræðu virðist stundum gleymast hversu fjölbreyttur hópurinn okkar er – fatlaðir eru nefnilega ekki eingöngu hreyfihamlaðir, stór hluti hópsins stríðir við annarskonar áskoranir sem kallar á aðrar nálganir. Þegar málefni jafn fjölbreytts hóps eru sett undir einn hatt er mikilvægt að gæta þess að þörfum hvers og eins sé mætt og að sjálfsákvörðunarréttur og réttur til sjálfstæðis sé í hávegum hafður. Það er mikilvægt að fatlaðir einstaklingar komi að öllum ákvörðunum sem að þeim lúta. Fatlaðir passa nefnilega ekki allir í sama boxið – ekki frekar en annað fólk.

Í Fjarðabyggð búa um þessar mundir 5.206 einstaklingar. Eins og fram kom í máli Unnar Helgu hérna áðan þá eru um 15% fatlaðir – sem við getum þá gert ráð fyrir að séu um 780 einstaklingar hér í okkar sveitarfélagi. Þessir einstaklingar þurfa allir að fá þjónustu við sitt hæfi. Sú þjónusta getur, og þarf að vera fjölbreytt og mæta þörfum hvers og eins. Húsnæðisúrræði þurfa að vera til staðar, öll þjónusta sem gerir fötluðum kleift að búa sjálfstætt, akstursþjónusta, aðgengi að íþróttum og tómstundum. Þess þarf að gæta við alla skipulagningu að aðgengi sé fyrir öll og þar getum við svo sannarlega gert betur. Í því tilliti má til dæmis benda á að Fjarðabyggð var lengi eftirbátur margra annarra sveitarfélaga að því leyti að hér var ekki starfandi aðgengisfulltrúi. Samkvæmt mínum heimildum er nú búið að tilnefna aðgengisfulltrúa en á heimasíðu sveitarfélagsins er þó engar upplýsingar að finna.

Það er á ábyrgð sveitarfélagsins að fatlaðir geti búið góðu lífi í Fjarðabyggð. Aðgengi þeirra sé gott, ekki aðeins líkamlegt aðgengi, ef ég má orða það þannig, heldur einnig aðgengi að upplýsingum, þjónustu, félagslífi, atvinnu, íþróttum og svo mætti lengi telja – raunverulegt aðgengi að samfélaginu sem heild.

Ég brenn fyrir því að fatlaðir einstaklingar fái tækifæri til þess að vera virkir þátttakendur í okkar góða samfélagi. Það er mikilvægt að fá að vera þátttakandi í samfélaginu, virkniúrræði fyrir fólk sem stendur utan vinnumarkaðar eru mikilvæg, en sveitarfélagið hefur einnig kjörið tækifæri til þess að vera leiðandi í því að gera fötluðum kleift að taka þátt í atvinnulífinu með lausnamiðaðri hugsun og auknum sveigjanleika. Þegar við gerum fötluðum einstaklingum ekki kleift að taka þátt í samfélaginu förum við á mis við gífurlega þekkingu og mannauð. Í allri umræðu um atvinnuþátttöku fatlaðra er þó mikilvægt að muna að hún er ekki á allra færi – en þau sem geta og vilja stunda vinnu við sitt hæfi ættu að hafa tækifæri til þess.

Við vitum að jaðarsettir einstaklingar eru sérstaklega útsettir fyrir hvers kyns mismunun og ofbeldi, því er einnig mikilvægt að við séum vakandi fyrir og spornum við hvers kyns ofbeldi og mismunun í garð fatlaðra – og þá sérstaklega þeirra sem eru í fleiri en einum minnihlutahópum.

Jafnrétti gengur ekki út á það að allir fái það sama heldur að allir einstaklingar samfélagsins fái það sem þeir þarfnast. Jafnrétti er ekki að allir fái úthlutað skóm númer 38 heldur að allir íbúar samfélagsins fái þá stærð af skóm sem passar þeim.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search