Search
Close this search box.

Fátt sem rökstyður hvalveiðar eftir árið 2024

Deildu 

Frá því að hvalveiðar í atvinnuskyni hófust á nýjan leik árið 2006 hafa verið veiddar nokkur hundruð langreyðar og talsverður fjöldi af hrefnum. Þessar veiðar hafa verið umdeildar þar sem að annars vegar sjónarmið eru uppi um að þessar veiðar þjóni ekki þjóðhagslegum hagsmunum Íslands og hins vegar sjónarmið um að það komi ekki öðrum við en Íslendingum hvort við kjósum að leyfa veiðar á stofnum sem eru ekki í útrýmingarhættu. Það sem er óumdeilt er að þessar veiðar hafa ekki haft mikla efnahagslega þýðingu fyrir þjóðarbúið á síðustu árum. Síðustu þrjú ár hafa engin stórhveli verið veidd en ein hrefna var veidd árið 2021. Fátt bendir til þess að það sé efnahagslegur ávinningur að því að stunda þessar veiðar, þar sem þau fyrirtæki sem hafa til þess leyfi hafa getað veitt hval síðustu ár en hafa ekki gert það. Ástæður þessa geta verið nokkrar en kannski einfalda skýringin sú að viðvarandi tap af þessum veiðum sé líklegust. 

Rökstuðning þarf ef leyfa á hvalveiðar 

Núverandi veiðiheimildir gilda út árið 2023. Að óbreyttu verður því engin veiði heimil á hvölum frá árinu 2024. Sýna þarf fram á að það sé efnahagslega réttlætanlegt að endurnýja veiðiheimildir. Í sögulegu samhengi hafa þessar veiðar haft neikvæð áhrif á útflutningshagsmuni landsins. Orðsporsáhættan sem fylgir því að viðhalda þessum veiðum áfram er talsverð þó að hún sé illmælanleg. Sem dæmi má nefna varð truflun á sölu á fiski og samningum sagt upp í aðdraganda þess að hvalveiðum í atvinnuskyni var hætt árið 1989. Þegar hvalveiðar hófust á nýjan leik árið 2006 voru viðbrögð hófstilltari en Bandaríkjamenn mótmæltu auk þess sem Whole Foods-keðjan hætti að markaðssetja íslenskar vörur í verslunum sínum um tíma. 

Japanir veiða nú sjálfir sitt hvalkjöt 

Þó að hvalveiðar við Íslandsstrendur séu sjálfbærar í þeim skilningi að ekki sé verið að ganga um of á stofnstærð þá er hæpið að halda því fram að veiðarnar séu sjálfbærar í félagslegum eða efnahagslegum skilningi. Japanir hafa verið stærstu kaupendur á hvalkjöti en neysla á því fer minnkandi ár frá ári. Því ætti Ísland að taka þá áhættu að viðhalda veiðum sem hafa ekki skilað efnahagslegum ábata til þess að selja vöru sem lítil eftirspurn er eftir? Japanir gengu úr Alþjóðahvalveiðiráðinu í byrjun árs 2019 og veiða nú sjálfir hvali í sinni lögsögu, en áður höfðu þeir veitt hvali á alþjóðahafsvæðum í nafni vísindarannsókna. Að óbreyttu er því fátt sem rökstyður það að heimila hvalveiðar eftir árið 2024. Á þessu ári verður unnið mat á mögulegum þjóðhagslegum og samfélagslegum áhrifum slíkrar ákvörðunar. 

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search