PO
EN

Fimm ára samningur um jarðfræðikortagerð og skráningu jarðminja

Deildu 

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra og forstjórar Íslenskra orkurannsókna og Náttúrufræðistofnunar Íslands hafa undirritað rammasamning um fimm ára átak í jarðfræðikortlagningu og skráningu jarðminja. Samningurinn er framhald rammasamnings um sama verkefni sem undirritaður var í desember 2018 og tók til áranna 2019 og 2020.

Samkvæmt samningnum einsetja stofnanirnar tvær sér að vinna náið saman að kortlagningu berggrunns landsins næstu fimm árin. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið leggur til verksins 100 milljónir króna og stofnanirnar hluta af rekstrarfé sínu. Auk þessa er gert ráð fyrir að öðrum aðilum verði gert kleift að styrkja einstök kortlagningarverkefni.

Í tíð fyrri rammasamnings lauk kortlagningu berggrunns Austfjarða og Vestur-gosbeltisins, auk þess sem lokið var við berggrunnskort af Mið-Íslandi. Mikilvægum áföngum var náð í kortlagningu Eyjafjarðarsvæðisins, Norðausturlands og Mið-Suðurlands. Á samningstímanum voru einnig skráðar tæplega 400 jarðminjar í gagnagrunn Náttúrufræðistofnunar Íslands og tengdust þær flestar ofangreindum kortlagningarverkefnum.

Nýi samningurinn gerir ráð fyrir að kortlagningu Mið-Suðurlands og Norðausturlands ljúki á samningstímanum og stefna samningsaðilar að því að gera hagaðilum kleift að styrkja vinnuna við þau kort svo vinnu við þau geti lokið sem fyrst. Hafist verður handa við kortlagningu nokkurra nýrra svæða, þ.e. Snæfellsness, valinna svæða á Suðausturlandi, svæðisins milli Norðurgosbeltisins og Austfjarða, svæðisins milli Mjóafjarðar og Vattarfjarðar á Vestfjörðum og Glámusvæðisins. Kortlagningu Eyjafjarðarsvæðisins verður haldið áfram á tímabilinu og í lok þess mun svæðið verða nánast fullkortlagt.

Fréttin birtist fyrst á vef Stjórnarráðsins.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search