Nýverið kom út skýrsla fjölmiðlanefndar um upplýsingaóreiðu og eru þar settar fram niðurstöður könnunar um viðhorf til ákveðinna hópa, skautun, traust og fleira í samanburði við hinar Norðurlandaþjóðirnar. Niðurstöðurnar sýna fram á að þriðjungur landsmanna trúir að minnsta kosti einni samsæriskenningu. Sú útbreiddasta er trúin á tilvist djúpríkis í íslensku samfélagi. Þá kemur fram að eftir því sem traust er minna er líklegra að upplýsingaóreiða hafi hljómgrunn. Trausti er auðvelt að glata og traust er erfitt að byggja upp. Það er áunnið.
Traust á stofnunum er lykilatriði
Mikilvægi trausts á stofnunum verður ekki ofmetið í lýðræðissamfélagi. Traust á stofnunum var okkur afar dýrmætt í glímunni við heimsfaraldur kórónuveiru. Þess vegna þótti mér mikilvægt að biðja Ríkisendurskoðun að gera stjórnsýsluúttekt á fiskeldi. Til þess að fram færi gagnrýnin umræða um hvernig stjórnvöld hafa staðið sig í undirbúningi laga, framkvæmd og skipulagi eftirlits og svo framvegis. Það er liður í því að skapa traust að kíkja í baksýnisspegilinn og lýsa í öll horn.
Það sem er ógagnlegt er þegar umræðan í samfélaginu verður óreiðukennd á kostnað staðreynda. Á þessu hefur borið í umræðu um skýrslu Ríkisendurskoðunar. Margir hagsmunaaðilar og stjórnmálamenn hafa staðhæft að skýrslan sýni fram á að málflutningur þeirra hafi verið réttur árum saman. Þá hefur til að mynda verið staðhæft að það sé engin gjaldtaka af fiskeldi, að fiskeldi greiði hæstu gjöld í heimi, að burðarþolsmati og áhættumati sé ekki sinnt og svo framvegis. Sumt af þessu er efnislega rangt og annað er túlkunum háð. Það er vissulega gjaldtaka af fiskeldi á Íslandi og það er lögbundið hlutverk Hafrannsóknastofnunar að sinna bæði áhættumati erfðablöndunar og burðarþolsmati.
Þróttmiklar atvinnugreinar þurfa skýran ramma
Þegar ég kom í ráðuneytið fyrir rúmu ári var ljóst að brýnt var að ráðast í stefnumótun í fiskeldi. En til þess að vita hvert við ætlum þurfum við að vita hvar við stöndum og því óskaði ég eftir áðurnefndri úttekt. Til að líta til framtíðar fékk ég til liðs við okkur í ráðuneytinu erlenda sérfræðinga til þess að kortleggja framtíðina í málaflokknum. Ég tel mikilvægt að stilla upp sviðsmyndum um hvaða hlutverk fiskeldi og lagareldi almennt geti haft í íslensku efnahagslífi. Þeirri skýrslu, unnin af Boston Consulting Group, verður skilað fljótlega. Það er mikill þróttur í greininni eins og hraður vöxtur hennar síðustu ár ber merki um. Þennan þrótt þarf að beisla innan ramma sjálfbærni. Það er okkur öllum til heilla að taka gagnrýna umræðu um framtíðarsýn fiskeldis á Íslandi. Til að sú umræða skili okkur sem bestum árangri er mikilvægt að hún byggist á grundvelli staðreynda en ekki óreiðu.
Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra.