PO
EN

Fiskeldi á traustum grunni

Deildu 

Ný­verið kom út skýrsla fjöl­miðlanefnd­ar um upp­lýs­inga­óreiðu og eru þar sett­ar fram niður­stöður könn­un­ar um viðhorf til ákveðinna hópa, skaut­un, traust og fleira í sam­an­b­urði við hinar Norður­landaþjóðirn­ar. Niður­stöðurn­ar sýna fram á að þriðjung­ur lands­manna trú­ir að minnsta kosti einni sam­særis­kenn­ingu. Sú út­breidd­asta er trú­in á til­vist djúprík­is í ís­lensku sam­fé­lagi. Þá kem­ur fram að eft­ir því sem traust er minna er lík­legra að upp­lýs­inga­óreiða hafi hljóm­grunn. Trausti er auðvelt að glata og traust er erfitt að byggja upp. Það er áunnið.

Traust á stofn­un­um er lyk­il­atriði

Mik­il­vægi trausts á stofn­un­um verður ekki of­metið í lýðræðis­sam­fé­lagi. Traust á stofn­un­um var okk­ur afar dýr­mætt í glím­unni við heims­far­ald­ur kór­ónu­veiru. Þess vegna þótti mér mik­il­vægt að biðja Rík­is­end­ur­skoðun að gera stjórn­sýslu­út­tekt á fisk­eldi. Til þess að fram færi gagn­rýn­in umræða um hvernig stjórn­völd hafa staðið sig í und­ir­bún­ingi laga, fram­kvæmd og skipu­lagi eft­ir­lits og svo fram­veg­is. Það er liður í því að skapa traust að kíkja í bak­sýn­is­speg­il­inn og lýsa í öll horn.

Það sem er ógagn­legt er þegar umræðan í sam­fé­lag­inu verður óreiðukennd á kostnað staðreynda. Á þessu hef­ur borið í umræðu um skýrslu Rík­is­end­ur­skoðunar. Marg­ir hags­munaaðilar og stjórn­mála­menn hafa staðhæft að skýrsl­an sýni fram á að mál­flutn­ing­ur þeirra hafi verið rétt­ur árum sam­an. Þá hef­ur til að mynda verið staðhæft að það sé eng­in gjald­taka af fisk­eldi, að fisk­eldi greiði hæstu gjöld í heimi, að burðarþols­mati og áhættumati sé ekki sinnt og svo fram­veg­is. Sumt af þessu er efn­is­lega rangt og annað er túlk­un­um háð. Það er vissu­lega gjald­taka af fisk­eldi á Íslandi og það er lög­bundið hlut­verk Haf­rann­sókna­stofn­un­ar að sinna bæði áhættumati erfðablönd­un­ar og burðarþols­mati.

Þrótt­mikl­ar at­vinnu­grein­ar þurfa skýr­an ramma

Þegar ég kom í ráðuneytið fyr­ir rúmu ári var ljóst að brýnt var að ráðast í stefnu­mót­un í fisk­eldi. En til þess að vita hvert við ætl­um þurf­um við að vita hvar við stönd­um og því óskaði ég eft­ir áður­nefndri út­tekt. Til að líta til framtíðar fékk ég til liðs við okk­ur í ráðuneyt­inu er­lenda sér­fræðinga til þess að kort­leggja framtíðina í mála­flokkn­um. Ég tel mik­il­vægt að stilla upp sviðsmynd­um um hvaða hlut­verk fisk­eldi og lagar­eldi al­mennt geti haft í ís­lensku efna­hags­lífi. Þeirri skýrslu, unn­in af Bost­on Consulting Group, verður skilað fljót­lega. Það er mik­ill þrótt­ur í grein­inni eins og hraður vöxt­ur henn­ar síðustu ár ber merki um. Þenn­an þrótt þarf að beisla inn­an ramma sjálf­bærni. Það er okk­ur öll­um til heilla að taka gagn­rýna umræðu um framtíðar­sýn fisk­eld­is á Íslandi. Til að sú umræða skili okk­ur sem best­um ár­angri er mik­il­vægt að hún bygg­ist á grund­velli staðreynda en ekki óreiðu.

Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search