Search
Close this search box.

Fjárfest í þjóðarhag

Deildu 

Það er ánægjuefni að kjarasamningar til næstu fjögurra ára hafi nú verið undirritaðir fyrir stóra hópa launafólks á almennum vinnumarkaði. Samningsaðilar hafa setið við samningaborðið nánast sleitulaust frá því um áramót með það skýra markmið að ganga frá langtímasamningum sem skapi forsendur fyrir lækkun vaxta og verðbólgu og auknum kaupmætti launafólks. Með þessu hafa aðilar vinnumarkaðarins sýnt ábyrgð og framsýni sem dregur úr óvissu í efnahagsmálum og hefur jákvæð áhrif á samfélagið allt.

Forystufólk verkalýðshreyfingarinnar hefur verið skýrt í málflutningi sínum um mikilvægi þess að stjórnvöld greiði fyrir farsælli niðurstöðu á vinnumarkaði við núverandi aðstæður. Ríkisstjórnin hefur átt í virku samtali við aðila vinnumarkaðarins allt frá því að gerðir voru skammtímasamningar á vinnumarkaði í árslok 2022. Þetta samtal hefur bæði farið fram í gegnum Þjóðhagsráð þar sem öll heildarsamtök á vinnumarkaði eiga sæti auk Sambands íslenskra sveitarfélaga og Seðlabankans en einnig á minni fundum með fulltrúum einstaka aðila.

Þær aðgerðir sem kynntar voru í liðinni viku til að greiða fyrir gerð kjarasamninga eru afrakstur þessara samtala og vinnu ríkisstjórnarinnar í samtali við sveitarfélögin á undanförnum mánuðum. Aðgerðirnar styðja við sameiginlegt markmið stjórnvalda og samningsaðila um að leggja grundvöll að vaxandi velsæld með auknum kaupmætti og stöðugleika í efnahagsmálum. Einkum er horft til verkefna sem styðja við uppbyggingu húsnæðis, húsnæðisstuðning og fjölskylduvænt samfélag og munu aðgerðirnar hafa umtalsverð áhrif á ráðstöfunartekjur og hag launafólks. Til að styðja við verðstöðugleika og lækkun vaxta munu ríki og sveitarfélög halda aftur af gjaldskrárhækkunum sínum og verður kjarasamningsaðgerðunum forgangsraðað sérstaklega í fimm ára fjármálaáætlun sem lögð verður fyrir Alþingi eftir páska.


Heilbrigðari húsnæðismarkaður

Ríkisstjórnin hefur á undanförnum árum byggt upp nýtt húsnæðiskerfi þar sem hlutverk hins opinbera við að treysta stöðugleika á húsnæðismarkaði og tryggja öllum hópum húsnæðisöryggi og viðráðanlegan húsnæðiskostnað hefur verið stóraukið. Þegar hafa verið veitt stofnframlög og hlutdeildarlán vegna um 4.500 íbúða. Áfram verður rík áhersla á öfluga uppbyggingu húsnæðis. Stutt verður við byggingu 1.000 íbúða á ári eða alls 4.000 íbúða á samningstímanum með stofnframlögum til almennra íbúða og hlutdeildarlánum og sveitarfélögin munu styðja við uppbygginguna með framboði af byggingarhæfum lóðum og hlutdeild í stofnframlögum til að mæta uppbyggingarþörf fyrir nýtt húsnæði.

Húsnæðisstuðningur verður aukinn bæði til leigjenda og eigenda. Til að mæta auknum vaxtakostnaði heimilanna nú um stundir verða á yfirstandandi ári greiddir út allt að 7 milljarðar króna í sérstakan vaxtastuðning til heimila með íbúðalán til viðbótar við almannar vaxtabætur. Stuðningurinn tekur mið af tekjum og eignum og getur numið allt að 150.000 krónum fyrir einstakling, 200.000 kr. fyrir einstæða foreldra og 250.000 fyrir sambúðarfólk. Þá verða húsnæðisbætur til leigjenda hækkaðar um 25% frá 1. júní n.k. og stutt verður betur við fjölmennari fjölskyldur í húsnæðisbótakerfinu. Húsnæðislánakerfið og fyrirkomulag húsnæðisstuðnings verður rýnt í samráði við aðila vinnumarkaðarins og fleiri og settar fram tillögur að framtíðarfyrirkomulagi.

Fjölskylduvænt samfélag

Á undanförnum árum hafa verið gerðar verulegar umbætur á barnabótakerfinu og verður stuðningur við fjölskyldufólk áfram aukinn með margvíslegum aðgerðum. Enn  verður aukið við stuðning í gegnum barnabótakerfið með hækkun grunnbóta og minni tekjuskerðingum og munu framlög til barnabóta aukast um 3 milljarða króna á þessu ári og 2 milljarða til viðbótar á árinu 2025 og verða þá um 21 milljarður króna. Áætlað er að þetta muni fjölga þeim foreldrum sem fá barnabætur um 10.000.

Samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga um gjaldfrjálsar skólamáltíðir grunnskólabarna er einn þeirra þátta sem forystufólk verkalýðshreyfingarinnar lagði hvað ríkasta áherslu á. Aðgerðin sem nær til ríflega 47.000 grunnskólabarna er bæði stórt kjaramál fyrir fjölskyldufólk sem greiðir að jafnaði um 12.000 krónur á mánuði fyrir skólamáltíðir fyrir eitt barn en aðgerðin er ekki síður mikilvæg til að auka jafnræði, draga úr fátækt barna og tryggja öllum börnum aðgengi að heilnæmu fæði á skólatíma. Til að tryggja betur afkomu ungbarnafjölskyldna og styðja við markmið fæðingarorlofskerfisins um samvistir barna við báða foreldra verða hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hækkaðar í 900.000 í þremur áföngum til 1. janúar 2026 en fyrsta skrefið verður tekið strax nú í apríl. Þá verður á samningstímanum unnið að því að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla í samstarfi ríkis, sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins sem er brýnt hagsmunamál fyrir foreldra ungra barna og mikilvægt jafnréttis- og efnahagsmál fyrir samfélagið allt. Auk þess verður vinnu við að útrýma kynbundnum launamun sem skýrist af kynskiptum vinnumarkaði og kerfisbundnu vanmati á hefðbundnum kvennastörfum haldið áfram með innleiðingu á nýju virðismatskerfi.

Auk þeirra umfangsmiklu aðgerða sem hér hafa verið nefndar verður á samningstímanum unnið að ýmsum öðrum framfara og velferðarmálum til hagsbóta fyrir launafólk. Má þar nefna aukna niðurgreiðslu ferðakostnaðar fyrir þau sem þurfa að sækja heilbrigðisþjónustu um langan veg, hækkun á hámarksábyrgð úr Ábyrgðasjóði launa, aukin framlög til Vinnustaðanámssjóðs til að efla vinnustaðanám og fjölga tækifærum til starfsþjálfunar og umbætur á Menntasjóði námsmanna.

Framundan eru kjarasamningar á opinberum markaði sem ég vona svo sannarlega að skili farsælli niðurstöðu. Ég er sannfærð um að þessar aðgerðir og umbætur skila fólkinu í landinu vaxandi velsæld á næstu árum. Bætt skilyrði á húsnæðismarkaði, áhersla á kjör fjölskyldufólks og uppvaxtarskilyrði barna eru verkefni sem munu skila okkur góðum ábata bæði í nútíð og framtíð. Sá ávinningur sem samfélagið allt hefur af langtímakjarasamningum sem skapa grundvöll til lækkunar verðlags og vaxta er margfaldur á við umfang þeirra aðgerða sem kynntar hafa verið og gefur okkur tækifæri til að halda áfram að vaxa og dafna næstu árin með jákvæðum áhrifum á ríkissjóð og hagkerfið allt.  Þannig eru þessir kjarasamningar fjárfesting í þjóðarhag og munu skila bættum lífskjörum fyrir landsmenn alla.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search