PO
EN

Fjár­festum í frið­sömum lausnum

Deildu 

Leiðarljós Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna er að sérhver einstaklingur sé borinn frjáls og jafn öðrum að virðingu og réttindum. Yfirlýsingin var undirrituð 10. desember 1948 eftir að mannkynið hafði kynnst hungri og stríði sem endaði með fjöldamorðum af völdum kjarnorkuvopna, stríði sem grundvallaðist á mannhatri og grimmd, grillunni um að sumt fólk væri æðra öðru líkt og helförin sýndi.

Á undanförnum árum hafa um það bil 40 átök verið háð í heiminum. Okkur birtist aðeins brot af þeim í fjölmiðlum en flest höfum við heyrt um þær hörmungar sem dunið hafa á fólki í Úkraínu, Palestínu og Jemen.

Að baki stríðsátökum liggja misjafnar ástæður, barátta um yfirráð yfir náttúruauðlindum og landi, menningu, trúarbrögðum og fólki. Þá er heill iðnaður sem hefur hag af vopnuðum átökum, hagsmunir hergagnaiðnaðarins eru þeir að fólk berjist. Stríð og átök ganga á grundarvallarmannréttindi, á aðgengi fólks að mat, menntun og læknishjálp og ljóst að með markaðsvæðingu stríðs og útvistun hergagnaframleiðslu til einkaaðila er hið kapítalíska kerfi tilbúið að fórna réttindum og lífum einstaklinga til að viðhalda og auka auð fárra, það er hluti af arðráni samtímans.

Stríð eyðileggur náttúruauðlindir sem hægt væri að nýta til að sigrast á hungri og fátækt. Í fyrra námu útgjöld til hernaðarmála á heimsvísu tveim trilljörðum Bandaríkjadala, en það er þúsund sinnum hærri upphæð en rennur til Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Ef öllum þeim fjármunum sem varið er í stríðsrekstur væri varið til uppbyggingar í þágu fólks, sér í lagi þeim sem minna mega sín, væri leikur einn að byggja upp betra líf í þágu þeirra. Það myndi leiða til betri heims. Þá eru ótalin öll ótímabæru dauðsföllin og harmurinn sem fylgir stríðsrekstri.

Gino Strada, hinn kunni ítalski baráttumaður fyrir friði, sagði að það að tryggja og byggja undir mannréttindi væri besta forvörnin gegn stríði. Mannréttindi eiga að vera ófrávíkjanleg réttindi allra og það er mín sannfæring að við eigum að treysta mannréttindi og fordæma stríðsrekstur sem veldur hungri og þjáningu. Okkur ber skylda til þess að stuðla að friðsamlegum lausnum í stað stríðs.

René Biasone er varaþingmaður VG í Reykjavík.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search