Search
Close this search box.

Fjarheilbrigðisþjónusta fyrir framtíðina

Deildu 

Efnahagsleg áhrif af heimsfaraldri kórónuveirunnar hafa verið mikil. Þrátt fyrir alla þá erfiðleika sem við er að glíma hefur ríkisstjórnin haft það sem leiðarstef að trúa á framtíðina, að þetta ástand sem við búum við núna sé tímabundið. Okkar verkefni er að standa saman, um leið og við nýtum sameiginlega sjóði okkar skynsamlega.

Og það er skynsamlegt að trúa á framtíðina.

Á seinasta kjörtímabili var sett í forgang að efla heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað og skilgreina hana sem fyrsta stigs þjónustu með áherslu m.a. á teymisvinnu, sem svo leiðbeinir fólki með næstu skref, t.d. að vísa því til sérgreinalækna. Þá er gríðarlega mikilvægt að fjarheilbrigðisþjónusta hefur verið talsvert efld sem gerir fólki kleift hvar sem er og fengið grunnþjónustu.

Í tíð síðustu ríkisstjórnar voru einnig stofnuð geðheilbrigðisteymi um allt land á heilsugæslustöðvunum. Við höfum verið með sérstakt fjármagn fyrir heilsueflandi móttökur og fjölgun sérnámslækna í heilsugæslu. Það er eitt af því sem skiptir miklu máli fyrir framtíðina.

Það er ótækt að fólk þurfi að ferðast þvert yfir landið, stundum oft í mánuði, til að sækja sér heilbrigðisþjónustu. Fyrir utan hvað slík ferðalög eru óumhverfisvæn er það líka kostnaðarsamt og veldur oft tekju- og vinnutapi og þannig viljum við ekki hafa það.

Eins og alltaf eru aukin lífsgæði samspil margra þátta og allt starf okkar á Alþingi á að miða að því. Við þurfum að ná breiðri samstöðu um að byggja upp tækifæri og jafna kjör almennings. Þegar á bjátar tökum við skynsamar og sanngjarnar ákvarðanir sem koma samfélaginu vel. Verkefnin eru alltaf ærin en þá er ekki síst mikilvægt að geta talað saman og miðlað málum. Það er nefnilega þannig að þegar forysta er traust þá skilar það árangri.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttur, þingmaður Vinstri grænna

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search