Search
Close this search box.

Fjárlagafrumvarpið: Innviðauppbygging, lækkun greiðsluþátttöku og efling heimahjúkrunar

Deildu 

Framlög til heilbrigðismála verða aukin um ríflega 15 ma.kr. á næsta ári, að frátöldum launa- og verðlagsbótum. Þetta er tæplega 6% raunaukning frá fjárlögum þessa árs. Af þessu renna tæpir 7. ma. kr. til uppbyggingar Landspítala. Mikil áhersla er á framkvæmdir sem efla innviði heilbrigðiskerfisins, s.s. uppbyggingu og endurbætur á húsnæði heilbrigðisstofnana og byggingu hjúkrunarheimila. Lækkun greiðsluþátttöku sjúklinga og efling heilsugæslu og heimahjúkrunar verða áfram forgangsmál. Þetta eru megináherslurnar í heilbrigðismálum eins og þær birtast í fjárlagafrumvarpi næsta árs. Samtals verða framlög til málaflokka sem heyra undir heilbrigðisráðherra um 283,5 ma.kr. króna á næsta ári sem nemur um fjórðungi af heildarútgjöldum ríkissjóðs. Sem hlutfall af vergri landsframleiðslu eru útgjöld til heilbrigðismála um 9,2%. 

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagði fyrir framlagningu fjárlagafrumvarpsins að það endurspegli áframhaldandi sókn í heilbrigðismálum og skýran vilja stjórnvalda til að efla þessa mikilvægu grunnstoð samfélagsins: „Það er alveg ljóst að öflugt, samhæft, opinbert heilbrigðiskerfi er mikilvæg forsenda fyrir góðri lýðheilsu og jöfnuði þar sem allir eiga rétt á góðri heilbrigðisþjónustu, óháð búsetu og efnahag. Kostir þessa kerfis verða enn ljósari þegar við stöndum frammi fyrir alvarlegri heilsufarsvá eins og nú, á tímum heimsfaraldurs COVID-19.“ 

Framkvæmdir 

 • Uppsteypa meðferðarkjarna Landspítala við Hringbraut verður stærsta framkvæmdaverkefni næsta árs. Aukin framlög til uppbyggingarinnar nema tæpum 7 ma.kr. en samtals renna 12 milljarðar króna til verkefnisins árið 2021. 
 • Rúmum 200 ma.kr. verður varið til að undirbúa byggingu nýrrar legudeildar við Sjúkrahúsið á Akureyri en gert er ráð fyrir 6,5 ma.kr. króna til verkefnisins í fjármálaáætlun til ársins 2025. 
  Um 300 milljónum króna verður varið til undirbúnings viðbyggingar við endurhæfingardeild Landspítala við Grensás.  Áætlaður heildarkostnaður vegna viðbyggingarinnar eru um 1,6 ma.kr. sem áformað er að fjármagna að fullu á næstu þremur árum.  
 • Um 600 milljónir renna til framkvæmda við sjúkrahúsið á Selfossi til viðbótar við 200 m.kr. í fjáraukalögum þessa árs. Heildarkostnaður vegna viðhalds og áformaðra endurbóta, m.a. byggingu viðbótarhæðar við sjúkrahúsið er um 3,3 ma.kr. sem áformað er að fjármagna að fullu  á næstu fjórum árum. 
 • Um 200 milljónum króna verður varið til byggingar nýrrar heilsugæslustöðvar á Suðurnesjum. Áætlaður heildarkostnaður er 700 milljónir króna og að framkvæmdum ljúki árið 2023.  
 • Veittar verða 200 milljónir króna til kaupa á viðbótarhúsnæði fyrir heilsugæslustöðina í Garðabæ og til endurbóta á heilsugæslunni í Firði í Hafnarfirði renna 50 milljónir króna. 
 • Fyrir liggur ákvörðun um að byggja tvær nýjar heilsugæslustöðvar á Akureyri. Á næsta ári eru 50 milljónir ætlaðar til verkefnisins til viðbótar við 100 m.kr. framlag á fjáraukalögum þessa árs vegna hönnunarkostnaðar. 
 • Ráðist verður í endurbætur á efstu hæð Heilbrigðisstofnunar Austurlands í Neskaupsstað og nemur framlag til þess 100 milljónum króna á næsta ári.  
 • Stefnt er að því að ljúka á næsta ári framkvæmdum sem standa yfir við Heilbrigðisstofnun Vesturlands í Stykkishólmi og renna til þess 50 milljónir króna, til viðbótar 170 milljónum króna af fjáraukalögum þessa árs. 
 • Sett verður á fót liðskiptasetur við Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi og renna um 200 milljónir króna til húsnæðisbreytinga vegna þess. Markmiðið er að auka afkastagetu við liðskiptaaðgerðir.
 • Veittar verða 100 milljónir króna til Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða til að byggja bílskúr fyrir sjúkrabifreið á Patreksfirði.

Heilsugæslan efld og greiðsluþátttaka sjúklinga lækkuð

 • Áfram verður unnið að því að lækka greiðsluþátttöku sjúklinga fyrir heilbrigðisþjónustu og verða fjárframlög til þess aukin um 800 milljónir króna á næsta ári.Framlög til heilsugæslu verða aukin um 200 milljónir króna til að fjölga fagstéttum og efla heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað sjúklinga í heilbrigðiskerfinu.
 • Framlög til að efla geðheilbrigðisþjónustu í samræmi við geðheilbrigðisáætlun verða aukin um 100 milljónir króna.
 • Tímabundið framlag, samtals 540 milljónir króna, er veitt til að efla geðheilbrigðisþjónustu í öllum heilbrigðisumdæmum landsins á tímum COVID-19.
 • Heimahjúkrun verður aukinmeð 250 milljóna króna viðbótarframlagi.

Rekstur og uppbygging hjúkrunarrýma

 • Framlög til reksturs hjúkrunarheimilaverða aukin um 1.150 milljónir króna í samræmi við áætlaða fjölgun hjúkrunarrýma á árinu.
 • Framlög til uppbyggingar hjúkrunarrýma verða aukin um tæplega 2,2 milljarða króna.

Aðhaldskröfur 

Sömu aðhaldskröfur eru gerðar til heilbrigðisstofnana og verið hefur undanfarin ár. Í heildina nemur aðhaldskrafa á málaflokka heilbrigðisráðuneytisins samtals um 2,2 ma.kr.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search