Search
Close this search box.

Fjármagni beint í sjálfbæra uppbyggingu

Deildu 

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, undirritaði í dag fyrir hönd ríkisstjórnarinnar viljayfirlýsingu ásamt meginhluta íslensks fjármálamarkaðar þar sem lýst er vilja til að nýta fjármagn til að viðhalda sjálfbærri þróun og taka tillit til alþjóðlegra skuldbindinga Íslands og þeirra viðmiða sem íslensk stjórnvöld hafa sett sér. Þar má nefna markmiðið um kolefnishlutlaust Ísland eigi síðar en árið 2040, markmið Parísarsamkomulagsins um að dregið verði úr losun gróðurhúsalofttegunda þannig að hlýnun jarðar fari ekki yfir 1,5 gráður og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun 2030.

Æðstu stjórnendur lífeyrissjóða, banka, sparisjóða, innlánastofnana, vátryggingafélaga og fjárfestingarsjóða undirrituðu viljayfirlýsinguna rafrænt en þeir fara fyrir hátt í 80% af eignum á íslenskum fjármálamarkaði.  Forsætisráðuneytið, Festa – miðstöð um samfélagsábyrgð og sjálfbærni, Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) og Landssamtök lífeyrissjóða (LL) unnu að mótun hennar í víðtæku samráði við fulltrúa helstu aðila á fjármálamarkaði.

„Samfélagslega ábyrg hugsun og sjálfbær þróun er rauður þráður í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Við viljum að stjórnvöld, fyrirtæki og stofnanir axli ábyrgð og hafi uppbyggileg áhrif á samfélagið. Til þess þarf að innleiða sjálfbærni og samfélagsábyrgð í allan rekstur. Sú hugmyndafræði mun skapa ný tækifæri og verða aflgjafi marghàttaðra framfara,“ segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra voru viðstödd undirritunina. 

Undir yfirlýsinguna skrifuðu einnig Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka Lífeyrissjóða, Hrund Gunnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Festu, miðstöðvar um samfélagsábyrgð og Katrín Júlíusdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja.    

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search