PO
EN

Fjármálaáætlun á óvissutímum

Deildu 

Ný-framkomin fjármálaáætlun styður við þá velsæld sem byggst hefur upp hér á síðustu árum þrátt fyrir heimsfaraldurinn og þær efnahagslegu ráðstafanir sem þurft hefur að ráðast í. Það er þó óhjákvæmilegt að umræðan hverfist um óvissuþætti. Bent hefur verið á skort á fjármagni til húsnæðismála, þrátt fyrir að 500 milljónum verði ráðstafað í þágu húsnæðisbóta til handa þeim sem verst standa á húsnæðismarkaði. Þá er vert að halda því til haga að ekki gengu öll framlög ríkisins til uppbyggingar til byggingar félagslegs húsnæðis út meðal annars vegna lóðaskorts, þrátt fyrir það voru það 7.000 fjölskyldur sem eignuðust sitt fyrsta heimili á liðnu ári og 22.000 á kjörtímabilinu.

Eðlilega er rætt um þá óvissu sem er uppi vegna innrásar rússneskra stjórnvalda í Úkraínu. En það er eins með stríðið og heimsfaraldurinn, ástandið er óhjákvæmilegt og við verðum einfaldlega að sníða okkur stakk eftir vexti. Í heimsfaraldrinum einsettum við okkur að milda efnahagsleg áhrif kreppunnar og minnka samdrátt í hagkerfinu og það höfum við gert. Það hefur ekki orðið nein stefnubreyting þar og því ekkert tilefni til að ætla að svo verði ekki áfram.

Okkar markmið er að tryggja stöðu barnafjölskyldna og aðgengi að góðri þjónustu. Í áætluninni er gert ráð fyrir eins milljarðs króna tímabundnu framlagi á ári í þrjú ár sem veitt verður til félagslegra úrræða í kjölfar faraldursins. Við höldum áfram að styrkja geðheilbrigðisþjónustu, ekki síst til að vinna gegn félagslegum og heilsufarslegum langtímaafleiðingum Covid-19. Á áætlunartímabilinu er sömuleiðis gert ráð fyrir auknum framlögum til endurskoðunar á örorkuhluta almannatrygginga þar sem áhersla verður lögð á starfsendurhæfingu og ýmis vinnumarkaðsúrræði.

Að lokum er það hið ærna verkefni sem fram undan er, að semja við launafólk um kaup og kjör. Það verður á næstu mánuðum okkar helsta viðfang. Við munum nálgast það verkefni eins og önnur undanfarin ár í góðu samtali við þá aðila.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, formaður fjárlaganefndar Alþingis.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.