PO
EN
Search
Close this search box.

Fjölskyldan og umhverfið

Deildu 

Fjölskylduvænt samfélag
V-listinn leggur áherslu á fjölskyldu, umhverfi og samfélag. Þegar ég flutti til Húsavíkur í ágúst 2019 var ég með þrjú börn í grunnskóla. Það fyrsta sem ég tók eftir er að tækifærin fyrir börn á grunnskólaaldri til að stunda fjölbreyttar íþróttir og gott félagslíf er til staðar. Skólinn tók vel á móti okkur og börnin urðu strax vinamörg. Ég fann að hér átti okkur eftir að líða vel og hér er svo sannarlega fjölskylduvænt umhverfi. En hvað er fjölskylduvænt umhverfi? Það er samfélag með góðum skóla, blómstrandi félagslífi og góðu íþrótta og tómstundastarfi. Það er samfélag þar sem barnafjölskyldur sækjast í að búa.

Gjaldfrjálsar máltíðir í leikskóla
Við þurfum að hafa grunngildi barnasáttmálans að leiðarljósi þegar við horfum til þess að auka velferð barnafjölskyldna. Því ætlum við hjá V-listanum að gera skólamáltíðir í leikskóla gjaldfrjálsar til að létta undir fjölskyldum leikskólabarna, strax á næsta ári. V-listi hafði frumkvæði að 12 mánaða inntökuviðmiði fyrir leikskólabörn á fyrra kjörtímabili og mun beita sér fyrir því að hnika því viðmiði ekki á kjörtímabilinu. Við viljum áfram tryggja góða leikskólaþjónustu fyrir íbúa dreifðra byggða.

Forvarnir með samfelldum vinnudegi barna
Við leggjum áherslu á forvarnir. Samverustundir foreldra og barna hafa forvarnargildi og viljum við samfelldan vinnudag barna. Þá er skólastarfi, frístundastarfi, listnámi og íþróttaiðkun fléttað inn í vinnudag barna í 1 –4. bekk sem er lokið kl. 16:00 alla virka daga. Við viljum einnig efla ungmennaráð hér í Norðurþingi. Koma ungmennahúsi inn í félagsmiðstöðvar og virkja ungt fólk til þátttöku í stjórnsýslunni. Við viljum koma á fót rafíþróttadeild með það að markmiði að minnka félagslega einangrun barna og ungmenna.

Forgangsröðun fjárfestinga í þágu barna
Starfsumhverfi kennara og nemenda í skólum og á skólalóðum Norðurþings þarf að bæta til muna. Það þarf viðhaldsátak í þágu fjölskyldna og barna, gera verkáætlun og framkvæma hluta á hverju ári þannig að hægt verði að vinna eftir ákveðnu skipulagi í viðhaldi eigna.

Þjónusta við íbúa óháð búsetu
Ég mun beita mér fyrir því að auka þjónustu við íbúa óháð búsetu. Ég þekki vel þá stöðu að búa í brothættri byggð af eigin raun. Það þarf samtal og sveitarstjórnarfólk þarf að vera sýnilegra um allt sveitarfélagið allt kjörtímabilið, ekki eingöngu í aðdraganda kosninga. V-listinn vill almennt að störfum innan stjórnsýslu Norðurþings, sem ekki eru bundin viðfangsefni á einum stað, verði hægt að sinna frá starfsstöðvum á Kópaskeri og Raufarhöfn ásamt Húsavík. Við viljum að hér sé gott að búa, í öllu sveitarfélaginu.

Ingibjörg Benediktsdóttir

Skipar 2. sæti á lista VG og óháðra í Norðurþingi.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search