Search
Close this search box.

Fjórða iðnbyltingin og alþjóðlegur baráttudagur kvenna

Deildu 

Á alþjóðlegum baráttudegi kvenna lítum við öxl og fögnum þeim áföngum sem barátta fyrri tíma hefur skilað okkur. Um leið hugum við að framtíðinni og þeim áskorunum sem þar blasa við. Áhrif tæknibreytinga á jafnrétti kynjanna eru afar sjaldan til umræðu. Samt vitum við vel að tæknin er ekki kynhlutlaus og fjórða iðnbyltingin er það ekki heldur. Breytt tækni og ný gervigreind mun að líkindum hafa mismunandi áhrif á kynin og er kynskiptur vinnumarkaður þar lykilbreyta.

Þróun vinnumarkaðar og gervigreindar á næstu áratugum er meðal umfjöllunarefna nýrrar skýrslu um Ísland og fjórðu iðnbyltinguna, sem unnin var af starfshópi á vegum forsætisráðuneytisins. Þar eru dregin fram þau ólíku áhrif sem líklegar breytingar næstu áratuga kunna að hafa á konur annars vegar og karla hins vegar. Karlar eru til dæmis töluvert líklegri til að gegna störfum sem verða fyrir miklum áhrifum af völdum nýrrar tækni og geta jafnvel úrelst, til dæmis í byggingargeiranum. Umönnun og kennsla, sem konur sinna í miklum meirihluta, eru dæmi um störf sem tæknin getur ekki leyst fyllilega af hólmi, en þau kunna eigi að síður að taka umtalsverðum breytingum á næstu árum og áratugum. Í þessu sambandi þurfum við líka að huga að áhrifum mögulegra mótvægisaðgerða á kynin og að menntunar- og endurmenntunarmöguleikar stuðli að auknu jafnrétti en verði ekki til þess að auka á kynjabilið.

Í þessu samhengi þarf einnig að horfa til þess að hópurinn sem mótar og þróar gervigreind – og þar af leiðandi „hugsun“ tækninnar – er afar einsleitur og konur eiga þar enn of litla aðkomu. Því er hætt við að gervigreindarvæðingin festi ákveðið valdaskipulag í sessi og að ákveðin viðmið og gildismat, sem ekki taka mið af fjölbreytileika manna verði þar ofan á. Mér var til dæmis bent á að það á fundi Vísinda- og tækniráðs á dögunum að ef maður slær inn orðið „human“ í leitarvélum birtast þar fyrst og fremst myndir af karlmönnum. Tilviljun?

Framtíðarhorfur út frá femínísku sjónarhorni var umfjöllunarefni rithöfundarins og aktívistans Beatrix Campell í fyrirlestri á 20 ára afmælismálþingi VG á dögunum. Hún fjallaði um þá þróun sem nú á sér stað í Kína og Indlandi þar sem stúlkubörnum hefur fækkað tilfinnanlega með tilkomu fóstureyðinga sem byggjast á kyni barns. Ef (en líklega væri réttara að segja þegar) hægt verður með tiltölulega einföldum hætti að eiga við samsetningu fóstra má ætla að hlutfallið skekkist enn frekar. Þetta kemur ekki til af einskærri illsku, heldur er samfélagsgerðin með þeim hætti að það getur skipt sköpum fyrir afkomu fjölskyldna að eignast syni. En eins og Campell benti á, þá þarf að hugsa þetta dæmi til enda. Í þessum löndum, eins og víðast hvar í heiminum, eru það konur sem sjá mest um umönnun barna, sjúkra og aldraðra. Og hvað gerist ef konurnar hverfa? Hver tekur þá að sér umönnunina?

Þetta er einnig mikilvæg spurning í samhengi við þau störf sem eru líkleg til að hverfa með nýrri tækni og þau störf og hlutverk sem tæknin getur reynst vanmáttug gagnvart. Því þótt hægt verði að mæta líkamlegum þörfum þeirra sem ekki geta séð um sig sjálfir með aðstoð tækninnar, þá má spyrja hvort tæknin geti sýnt alúð og umhyggju. Því við vitum að án umhyggju visnum við öll. Einmitt þess vegna hefur tilfinningagreind færst ofar á listum yfir þá færni sem telst eftirsóknarverð á nýrri öld.

Við þurfum að undirbúa okkur sem best undir breytta tíma, endurskoða menntun og símenntun og líta til fjölmargra þátta nú þegar stórtækar breytingar eru að verða á þeim kröfum sem leikur og störf gera til okkar. Samhliða þurfum við að tryggja að tæknivæðingin verði ekki til þess að auka á misrétti milli kynjanna eða jaðarsetningu annarra hópa, heldur einmitt að hún færi okkur ný tækifæri til að byggja upp samfélag jöfnuðar og jafnra tækifæra. Stjórnvöld eru meðvituð um þetta í sinni stefnumótun og er nýja skýrslan um Ísland og fjórðu iðnbyltinguna fyrsta skrefið í átt að heildstæðri stefnumótun á þessu sviði.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search