Search
Close this search box.

Fleiri hjúkrunarfræðinga – tillögur um mönnun

Deildu 

Starfshópur sem heilbrigðisráðherra fól að leggja mat á raunhæfar aðgerðir til að bæta mönnun hjúkrunarfræðinga og annarra heilbrigðisstétta í heilbrigðiskerfinu hefur skilað ráðherra skýrslu með niðurstöðum sínum og tillögum. Byggt var á niðurstöðum könnunar meðal níu stærstu heilbrigðisstofnana á landinu, skýrslu Ríkisendurskoðunar og ýmsum fleiri upplýsingum sem tengjast þessu efni. Í vinnu sinni tók starfshópurinn einnig mið af markmiðum heilbrigðisstefnu til ársins 2030.

Markmið tillagna starfshópsins lúta að því að fjölga starfandi hjúkrunarfræðingum og hækka starfshlutfall þeirra, stuðla að því að hjúkrunarfræðingar haldist betur í starfi, ná til baka hluta þeirra sem horfið hafa til annarra starfa og tryggja næga endurnýjun þannig að nýliðun fylgi þörf heilbrigðiskerfisins.

Tillögur hópsins snúa meðal annars að aðgerðum til að bæta starfsumhverfi, s.s. með því að efla getu stjórnenda á sviði starfsmannamála með góðu skipulagi, áherslu á þverfaglegt samstarf og jákvæða vinnustaðamenningu. Stjórnendur verði þannig hvattir til að stuðla að valdeflingu starfsfólks og gera því kleift að hafa áhrif á skipulag vinnunnar, stuðla að heilsueflingu starfsfólks og fleira þessu tengt. Einnig verði horft til verkaskiptingar starfsfólks, mögulegra breytinga og tilfærslu verkefna.

Lagt er til að kannaðir verði kostir þess að setja viðmið um mönnun á heilbrigðisstofnunum með tilliti til mismunandi þjónustu og hvaða leiðir er best að fara í þeim efnum, að fylgst verði með innleiðingu nýs vaktavinnukerfis og áhrifum þess á mönnun og starfshlutfall og enn fremur að lagt verði heildarmat á verklag og þann faglega stuðning tengdu álagi í starfi sem stendur hjúkrunarfræðingum til boða. Enn fremur að nýtt verði ákvæði um ívilnanir samkvæmt nýjum lögum nr. 60/2020 um Menntasjóð námsmanna, bæði þar sem er skortur eða fyrirsjáanlegur skortur á tiltekinni heilbrigðisstétt, eða skortur tengdur ákveðnum svæðum eða byggðum.

Lagt er til að gagnaöflun um mönnun heilbrigðisstétta verði stórefld og bætt með miðlægum gagnagrunni, að skýrsla um mönnun heilbrigðisþjónustu verði birt á aðgengilegu formi ár hvert og að á fimm ára fresti sé unnin og birt mannaflaspá fyrir heilbrigðisþjónustu á Íslandi.

Hópurinn gerir einnig tillögur um aðgerðir til að efla nýsköpun og tækni, m.a. með stofnun miðstöðvar fjarheilbrigðisþjónustu sem sinni menntun og þjálfun á þessu sviði, að byggð verði upp öflug hermisetur við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri og loks að fjárheimildum til heilbrigðisþjónustu verði forgangsraðað þannig að aukin áhersla verði lögð á endurnýjun tækja, til nýsköpunar og aukinnar tæknivæðingar.

Þær tillögur sem hér hafa verið raktar eru langt í frá tæmandi upptalning á tillögum starfshópsins sem snúa einnig að hluta til að menntun heilbrigðisstétta með vísan í niðurstöður starfshóps sem fjallaði um menntun hjúkrunarfræðinga og skilaði tillögum til heilbrigðisráðherra í apríl síðastliðnum.

Meðfylgjandi er skýrsla starfshópsins ásamt glærum þar sem niðurstöður hans eru kynntar í stuttu máli.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search