Search
Close this search box.

Fólk í fyrirrúmi

Deildu 

Til að bregðast við auk­inni hættu á of­beldi gegn börn­um var haf­ist handa við vit­und­ar­vakn­ingu sem verður haldið áfram auk þess sem fé­laga­sam­tök sem sinna ráðgjöf við börn og fjöl­skyld­ur þeirra hafa verið styrkt og eifld sem og Barna­hús. Þá verður farið í sér­stakt átak og mark­viss­ar aðgerðir til að berj­ast gegn heim­il­isof­beldi sem er því miður oft og tíðum fylgi­fisk­ur sam­fé­lags­legra áfalla. Kem­ur þetta til viðbót­ar við þær aðgerðir sem þegar hef­ur verið gripið til, svo sem efl­ing hjálp­ar og stuðnings fyr­ir þolend­ur og gerend­ur.

Við þær ótrú­legu kring­um­stæður sem við upp­lif­um nú kem­ur mik­il­vægi þess að eiga traust bak­land og stuðningsnet skýr­lega í ljós. Þess vegna er einnig lögð áhersla á að vinna gegn fé­lags­legri ein­angr­un viðkvæmra hópa, t.d. aldraðra, fatlaðs fólks, fólks af er­lend­um upp­runa, heim­il­is­lausra og barna og fjöl­skyldna þeirra.

Það er eng­um blöðum um það að fletta að at­vinnu­ástandið vegna COVID-19-far­ald­urs­ins er mjög al­var­legt og hætt­an á viðvar­andi at­vinnu­leysi mikið áhyggju­efni. Hluta­bóta­leiðin svo­kallaða hef­ur sann­ar­lega dempað fallið og komið vel út og viðhaldið ráðning­ar­sam­band­inu en nauðsyn­legt er að vinna gegn at­vinnu­leysi og ná því niður eins fljótt og auðið er. Það er því ánægju­legt að í aðgerðapakk­an­um séu fjöl­breytt­ar at­vinnu­skap­andi leiðir sem er ætlaðar eru til að minnka at­vinnu­leysi.

Eitt veiga­mesta úrræðið er fjöl­breytt náms- og starfsúr­ræði fyr­ir at­vinnu­leit­end­ur. At­vinnu­leys­is­trygg­inga­sjóði verða veitt­ir tveir millj­arðar til verk­efn­is­ins sem er áætlað að geti náð til 15 þúsund at­vinnu­leit­enda og er mark­mið þess að vinna gegn þeirri mein­semd sem langvar­andi at­vinnu­leysi er.

Fram hef­ur komið að náms­menn hafi áhyggj­ur af því að fá ekki vinnu í sum­ar. Tveir millj­arðar verða því sett­ir til að skapa sum­arstörf fyr­ir náms­menn, en nefnt hef­ur verið að það kynni að skapa allt að þrjú þúsund störf fyr­ir náms­menn. Áætlað er að sveit­ar­fé­lög­in leggi einnig sitt af mörk­um í sama til­gangi í sum­ar. Jafn­framt verða sett­ar 300 millj­ón­ir auka­lega í Ný­sköp­un­ar­sjóð náms­manna sem munu skapa enn fleiri störf fyr­ir náms­menn og stuðla að ný­sköp­un. Mik­il­vægt er að unga fólkið okk­ar fái að nýta starfs­krafta sína og ekki verra ef það fær að nýta mennt­un sína í leiðinni og jafn­vel skapa sér at­vinnu­tæki­færi til framtíðar.

Þessi úrræði munu ekki ein­ung­is vinna gegn at­vinnu­leysi held­ur einnig leiða til inn­lendr­ar verðmæta­sköp­un­ar. Ég tel að 250 millj­óna króna aukið fram­lag í lista­manna­laun á þessu ári til þess að geta stækkað þann hóp muni styðja við lista­menn­ina okk­ar sem hafa svo sann­ar­lega sýnt okk­ur við þess­ar for­dæma­lausu aðstæður hve list­in nær­ir og gleður á erfiðum tím­um. Jafn­framt verður sett­ur á fót Mat­væla­sjóður með 500 millj­óna stofn­fram­lagi og 100 millj­ón­ir fara í að styrkja markaðssetn­ingu á alþjóðamörkuðum, auk 200 millj­óna króna fram­lags til ís­lenskr­ar garðyrkju sem er til­komið vegna nýs samn­ings við garðyrkju­bænd­ur.

Nú sem aldrei fyrr er nauðsyn­legt að efla ný­sköp­un og verðmæta­sköp­un í mat­væla­fram­leiðslu og búa í hag­inn fyr­ir framtíðina í mat­væla­ör­yggi og sjálf­bærni.

Þess­um aðgerðum og fleir­um er ætlað að viðhalda fé­lags­leg­um stöðug­leika á ólgu­tím­um og milda þau nei­kvæðu lang­tíma­áhrif sem efna­hagskreppa hef­ur á fólk og heim­ili. Við ger­um það með fjölþætt­um aðgerðum sem bein­ast að því að byggja upp varn­ir í erfiðum aðstæðum. Við ger­um það með því að vernda það fólk sem lend­ir í erfiðleik­um og at­vinnum­issi og viðkvæma hópa. Við ger­um það með því að gef­ast ekki upp held­ur veita sterka viðspyrnu í efna­hags­mál­um svo við lend­um á fót­un­um og kom­um enn sterk­ari og reynsl­unni rík­ari út úr þessu verk­efni. Verk­efni sem við báðum ekki um en ætl­um að kom­ast í gegn­um með sam­eig­in­legu átaki þjóðar­inn­ar.

Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna og formaður at­vinnu­vega­nefnd­ar.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search