Ekki þarf að hafa mörg orð um þá stöðu sem fram undan er í efnahagslegu tilliti. Skjót viðbrögð og sterk staða þjóðarbúsins gera það að verkum að hægara er um vik að bregðast við. Sú staða er ekki tilviljun, hún er afleiðing pólitískra ákvarðana um að styrkja velferð og að beita ríkissjóði til jöfnunar og örvunar hagkerfisins.
Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur þannig styrkt heilbrigðiskerfið með umfangsmiklum fjármunum, um tugi milljarða. Þá hefur verið aukið mjög við framkvæmdir, en ríkisútgjöld hafa verið aukin um 45% frá því að Vinstri græn tóku við forystu í ríkisstjórn. Þetta styrkir innviðina í að bregðast við því ástandi sem fram undan er.
Góð samstaða hefur verið um þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur lagt til sem viðbrögð við ástandinu. Þar hefur fókusinn fyrst og fremst verið á fólkið, með því að tryggja laun í sóttkví og laun til þeirra sem fara tímabundið í minna starfshlutfall úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Við búum einnig að því að hafa hækkað upphæð atvinnuleysisbóta á árinu 2019 með 9 milljarða króna aukningu framlaga til Atvinnuleysistryggingasjóðs.
Alþingi hefur nú til umfjöllunar mál sem snúa að frekari viðbrögðum. Heildarumfang aðgerðanna nemur að lágmarki um 230 milljörðum króna. Þar er áherslan á að verja lífsafkomu fólksins í landinu, að hjálpa fyrirtækjum svo þau geti haldið fólki í vinnu og greitt laun og hins vegar með beinum stuðningi, til dæmis með sérstakri greiðslu barnabóta og með því að verja fólk í hlutastörfum fyrir tekjufalli. Þá er sérstaklega horft til þess, í þeim auknu fjárfestingum sem boðaðar hafa verið, að efla þekkingu, nýsköpun og skapandi greinar og grænar lausnir.
Þetta er í fullu samræmi við stefnu Vinstri grænna. Fólk er sett í forgang, velferðin varin og viðspyrnan verður ekki síst undir formerkjum nýsköpunar og grænna lausna. Við munum gera það sem þarf til að koma okkur í gegnum þessar tímabundnu aðstæður og til bjartari tíma.
Kolbeinn Óttarsson Proppé, alþingismaður.