Search
Close this search box.

Fór í banka – ekki banka

Deildu 

Í sjónvarpsþáttaröðinni um Heilsubælið lék Gísli Rúnar furðulegan fír sem heimsótti bælið reglulega til að reyna að ná tali af Jóni Péturssyni lækni. Jón læknir var aldrei við en skildi jafnan eftir miða með skilaboðum á hurðinni. Í eitt skiptið voru skilaboðin þessi: Fór í banka, ekki banka. Hin grátbroslega atburðarás við síðustu sölu hlutabréfa í Íslandsbanka gæti hæglega hafa verið fengin úr þáttaröðinni um Heilsubælið. Eina sem greinir að er að atburðirnir í Íslandsbanka eru enn brjálæðislegri en hið geggjaða spaug í Heilsubælinu. En Íslenskur fjármálaheimur er sannarlega ekkert spaug.

Eftir bakahrunið 2008 var íslenska þjóðin ákveðin í því að skapa betra samfélag þar sem fjárglæframenn gætu ekki leikið lausum hala eins og raunin var í aðdraganda hrunsins. Aldrei aftur mætti gróðafíkn og brask lítils hóps peningafíkla gera íslenskt samfélag nánast gjaldþrota og valda þúsundum fjölskyldna eignamissi og öðrum alvarlegum búsifjum. Eitt af þeim sviðum sem skoðuð voru sérstaklega var rekstur og rekstarform banka en þeir íslensku bankar sem fóru í þrot voru allir reknir sem bæði viðskipta- og fjárfestingarbankar. Í umræðu um framtíð íslenska bankakerfisins var rifjuð upp sú þróun sem orðið hafði í BNA eftir heimskreppuna á síðustu öld og þann lærdóm sem af því mætti draga. Eftir þá kreppu voru árið 1933 sett lög í BNA um aðskilnað fjárfestinga- og  viðskiptabanka. Bankakerfi BNA var rekið á þeim forsemdum allt til ársins 1999. Mér vitanlega háðu lögin frá ´33 ekki rekstri viðskiptabanka þar í landi þau 66 ár sem þau voru i gildi. Eftir að þau voru afnumin leið ekki áratugur þar til ný bankakreppa reið yfir.

Í eftirmála hrunsins var gerð viðamikil  Rannsóknarskýrsla á vegum Alþingis. Í 8. kafla skýrslunnar eru meðal annars þessar ábendingar:

„Á opinberum vettvangi þarf siðferðileg hugsun öðru fremur að lúta viðmiðum um almannahagsmuni enda ber almannaþjónum að efla þá og vernda gegn hvers konar sérhagsmunum. Það er einkenni siðferðilegrar hugsunar að hún metur gæði þeirra markmiða sem stefnt er að. Tæknileg hugsun aftur á móti snýst um að velja áhrifaríkustu leiðirnar að völdu markmiði óháð því hvert það er. Siðferðileg hugsun hefur átt erfitt uppdráttar meðal annars vegna þess að ákveðið viðmiðunarleysi hefur verið ríkjandi um ágæti markmiða og vantrú á rökræðu um þau. Slík afstaða býr í haginn fyrir að sérhagsmunir þrífist á kostnað almannahagsmuna en það er eitt megineinkenni á því hugarfari sem ríkti hérlendis í aðdraganda bankahrunsins.“

Því miður virðist þessi ábending eiga jafn vel við í dag, þrátt fyrir háleit markmið um annað, svardaga stjórnmálamanna um betra og öflugra regluverk og ákall almennings um breytt og betra siðferði í Íslenskum fjármálaheimi.

Eitt af þeim verkfærum sem stjórnmálin mátuðu og töluðu fyrir var fullur og alger aðskilnaður fjárfestinga- og viðskiptabanka. Á þinginu 2016-2017, þingskjal 135, var lögð fram tillaga til þingsályktunar um aðskilnað fjárfestingarbaka og viðskiptabanka. Fyrsti flutningsmaður var Katrín Jakobsdóttir og með henni Svandís Svavarsdóttir, Birgitta Jónsdóttir, Eygló Harðardóttir, Logi Einarsson, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Smári McCarthy, Oddný G. Harðardóttir, Einar Brynjólfsson, Steinunn Þóra Árnadóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Viktor Orri Valgarðsson, Guðjón S. Brjánsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir. Í greinargerð með frumvarpinu segir m.a:

Í fyrirliggjandi tillögu til þingsályktunar er gert ráð fyrir að samið verði og lagt fyrir Alþingi lagafrumvarp sem tryggi aðskilnað starfsemi viðskiptabanka og fjárfestingarbanka.
Bankastarfsemin sem hér um ræðir, annars vegar rekstur fjárfestingarbanka og hins vegar starfsemi almennra viðskiptabanka, er gjörólík þannig að mikið álitamál er hvort þessi rekstur geti átt farsæla samleið í einu og sama fyrirtækinu ef mat á því fer fram á forsendum almannahagsmuna en ekki sérhagsmuna þeirra sem eiga og starfrækja fjármálafyrirtækin.   Almenn viðskiptabankastarfsemi byggist á inn- og útlánum og því sem kalla má hefðbundna fjármálaþjónustu við einstaklinga og fyrirtæki og nýtur sem slík sérstakrar verndar hins opinbera sem baktryggir þessa starfsemi að ákveðnu marki með innlánavernd. Fjárfestingarbankar fást hins vegar við fjármögnun ýmiss konar fjárfestinga; viðskipti með verðbréf, hlutabréf, ráðgjafarstarfsemi og eignastýringu og rekstur þeirra er að jafnaði til muna áhættusæknari og áhættusamari en starfsemi hinna almennu viðskiptabanka.
Með því að blanda saman almennri bankastarfsemi og hinum áhættusækna fjárfestingarbankarekstri skapast hætta á að tjón vegna fjárfestinga sem farið hafa í súginn lendi á almenningi í stað þess að það hafni allt og óskipt hjá þeim sem gerðu hinar áhættusömu ráðstafanir.
Frá bankahruninu haustið 2008 hefur mikil og gagnrýnin umræða farið fram um starfsaðferðir bankanna í aðdraganda þess að þeir urðu gjaldþrota. Lagaramminn og regluverkið sem þeir störfuðu eftir hafa ekki síður orðið tilefni til gagnrýninnar umfjöllunar og endurskoðunar, enda ein meginástæða þess að bankarnir áttu þess kost að ráðast í áhættusamar fjárfestingar handan allra skynsemismarka og þenja út starfsemi sína í óviðráðanlegar stærðir. Einkum hefur verið fundið að því að innlán sparifjáreigenda, sem höfðu bakábyrgð frá ríkinu, skuli, bæði í viðskiptabönkum og sparisjóðum, hafa verið nýtt sem spilapeningar í glæfralegum fjárfestingum, m.a. í fyrirtækjum sem voru nátengd eigendum þessara sömu fjármálastofnana.“

Tillaga þessi náði ekki fram að ganga. Þó voru gerðar breytingar á lögum um bankastarfsemi í átt að aðskilnaði. 

Viðbrögð stjórnar Íslandsbanka við atburðum síðustu daga eru mjög athyglisverð. Þegar bankastjórinn Birna hrökklast úr starfi er óðara skipaður nýr bankastjóri, beint úr efsta lagi stjórnenda bankans. Og kotroskinn lýsir hann því yfir að „hann sé kominn til að vera“. Formaður stjórnar bankans hafnar algjörlega kröfum þingmanna um að birta starfslokasamning fráfarandi bankastjóra. Þetta er aðferð Íslandsbanka til að „endurreisa traust á bankanum“ eins og þeir segjast stefna að.  Það er ekki hægt að draga aðra ályktun en þá  að ekkert sé að breytast í stjórn þessa banka. Þau siðferðisviðmið sem lýst er eftir, bæði í rannsóknarskýrslu Alþingis og í greinargerð með frumvarpi um aðskilnað fjárfestingar og viðskiptabaka lýsa með fjarveru sinni.

Ég tel að nú sé rétti tíminn til að dusta rykið af tillögunni frá 2016/17 um að skilja að fjárfestingarbaka og viðskiptabanka. Besta og mögulega eina leiðin til að tryggja eðlilegan rekstur viðskiptabanka er fullur aðskilnaður frá áhættusækinni starfsemi fjárfestingarbanka. Slíka tillögu þurfa þingmenn VG að leggja fram. Í framhaldi af slíkum aðskilnaði er hægt að breyta Landsbankanum í samfélagsbanka sem þjónar fyrst og fremst þörfum almennings.

Steinar Harðarson er gjaldkeri Vinstri grænna.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search