Search
Close this search box.

Forgangsröðun í þágu barna og viðkvæmra hópa

Deildu 

Gott nærsamfélag skiptir  miklu máli fyrir okkur öll. Vel sé séð fyrir mismunandi þörfum fólks. Tekið sé vel utanum þau sem á aðstoð þurfa að halda, börnin njóti þroskandi uppeldis og góðrar fjölbreyttrar menntunar í heildstæðu skólastarfi, hollra skólamáltíða og heilnæms umhverfis. Stutt sé við æskulýðs,- og félagsstarf við allra hæfi. Samfélag þar sem öll hafa tækifæri á að njóta þeirra gæða óháð efnahag eða félagslegra aðstæðna.

Það er verkefni sveitarfélaganna að tryggja þessa innviði, byggja upp og næra. Sveitarfélögin eru misjafnlega stödd fjárhagslega, aðstæður ójafnar, bæði hvað varðar tekjustofna, samsetningu og landfræðilega legu og ljóst að þau þurfa í heild sinni styrkari tekjustofna. Hér skiptir hinsvegar forgangsröðun grundvallarmáli og í þágu hverra.

Fjöldi sveitarfélaga hefur sýnt áræðni og seiglu við uppbyggingu félagslegra innviða, skólastarfs og ekki síður leikskólastarfs. Bjóða upp á ókeypis eða ódýr leikskólapláss og skólamáltíðir, styðja við tómstunda,- og félagsstarf sem hæfir öllum, þar sem enginn er skilinn eftir. Það eru sveitarfélög sem setja velferð og hag barnafjölskyldna í forgang og hlífa þeim sérstaklega þegar herða þarf ólina. Hér skiptir öllu pólitískur vilji og sýn kjörinna fulltrúa.

Í aðhaldi reynir á pólitíska forgangsröðun, líkt og í höfuðborginni, sem stýrt er af Samfylkingu og framsókn. Það er pólitísk ákvörðun að taka mikilvæg úrræði af ungmennum sem þurfa mest á að halda. Þar skortir heildarsýn í málefnum barna og ungmenna,  það er engin heildræn stefna í aðhaldi, nú eða uppbyggingu. Aðgerðir sem skila sér í skammtímalausnum og meiriháttar skerðingu á lífsgæðum ungmenna, áhrif sem vara alla æfi. Þessar pólitísku ákvarðanir Samfylkingar og fylgifiska ógna nú andlegri heilsu og félagsfærni ungmenna sem hafa ekki í mörg hús að vernda. Hóp ungmenna sem eru í viðkvæmastri stöðu. Þegar á reynir kemur í ljós hvar áherslurnar hjá Samfylkingunni liggja í raun og þær eru ekki í átt að jöfnuði. Það skiptir máli hver stjórna.

Bjarni Jónsson, þingmaður Norðvesturkjördæmis.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search