„Ég vil segja það að hér að ég hef verið gríðarlega ánægð með þá samstöðu sem maður hefur skynjað í samfélaginu í því að takast á við veiruna. Bæði fyrirtæki og fólk hafa þar sýnt mikla ábyrgð. Flokkar á Alþingi hafa sýnt mikla ábyrgð. Þetta er dýrmætt.
En þá verður maður líka reiður þegar fyrirtæki í sjávarútvegi gera kröfu á ríkið upp á ríflega tíu milljarða vegna makrílúthlutunar.“ , sagði Katrín Jakobsdóttir á Alþingi áðan.
þegar hún flutti munnlega skýrslu um áhrif COVID-19 faraldursins og um viðbrögð stjórnvalda við þeim áhrifum á Alþingi í dag.
Kjarninn greindi frá því á laugardag að sjö útgerðir krefji íslenska ríkið um samtals 10,2 milljarða króna auk hæstu fáanlegu vaxta vegna fjártjóns sem þau telja sig hafa orðið fyrir vegna makrílkvóta sem fór ekki til þeirra á árunum 2011 til 2018. Útgerðirnar ákváðu að höfða mál eftir að tveir dómar féllu í Hæstarétti í desember 2018 sem sögðu að ekki hefði verið rétt haldið á úthlutun á makrílkvóta.
Katrín sagði þetta ekki góða leið til að efla samstöðu í samfélaginu. „Það er ekki góð leið til að vera á sama báti í gegnum þetta ferðalag sem við erum stödd í. Þó ég telji að ríkið hafi góðan málstað í þessu máli þá finnst mér eðlilegt að þessi fyrirtæki íhugi það að draga þessar kröfur á til baka. Nú reynir nefnilega á ábyrgð okkar allra.“
Um er að ræða fyrirtækin Gjögur hf., Ísfélag Vestmannaeyja hf., Skinney-Þinganes hf., Loðnuvinnslan hf. og Huginn ehf., Eskja hf. og Vinnslustöðin hf.
Þetta sagði Katrín á facebook síðu sinni, eftir að hún flutti skýrslu sína á Alþingi.
„Mér hefur orðið tíðrætt um samstöðu og samheldni sem hafa birst í íslensku samfélagi eftir að kórónaveirufaraldurinn blossaði upp. Þessi samstaða er aðdáunarverð og mun reynast okkar mesti styrkur til að sigrast á faraldrinum. En það er dapurlegt að sjá að á sama tíma og allir eru að leggja sitt af mörkum halda nokkrar útgerðir stefnu sinni á hendur ríkinu til streitu með kröfum sem nema meira en tíu milljörðum króna. Ég tel að staða ríkisins sé sterk í þessu máli og líkt og fram kom í máli fjármálaráðherra verður sá reikningur ekki sendur á skattgreiðendur. En auðvitað er enginn bragur á öðru en þessar útgerðir láti sínar kröfur falla niður og taki þátt í þeirri samstöðu sem við þurfum á að halda til að takast á við faraldurinn, bæði afleiðingar hans fyrir heilsu fólk en einnig fyrir samfélag og efnahag. Þetta var meðal þess sem ég ræddi í skýrslu minni til Alþingis í dag.“