PO
EN

Forsendur fyrir atvinnustarfsemi innan Vatnajökulsþjóðgarðs bættar

Deildu 

Reglugerð um Vatnajökulsþjóðgarð hefur verið endurútgefin með viðbót sem fjallar um atvinnutengda starfsemi í þjóðgarðinum. Tilgangurinn er að móta samræmdar reglur fyrir atvinnustarfsemi innan þjóðgarðsins á grunni atvinnustefnu hans.

Haustið 2016 tóku gildi breytingar á lögum um Vatnajökulsþjóðgarð með ákvæðum um að setja nánari reglur um atvinnutengda starfsemi og leyfisveitingar. Samkvæmt lagabreytingunum varð óheimilt að reka atvinnutengda starfsemi í þjóðgarðinum án sérstakra samninga þar um og setja skyldi skilyrði fyrir starfseminni sem yrðu nánar útfærð í reglugerð um Vatnajökulsþjóðgarð. Það hefur nú verið gert, með endurútgáfu reglugerðarinnar.

Þar er að finna skilgreiningar á atvinnutengdri starfsemi, fjallað er um málsmeðferð, samningagerð og gerður greinarmunar á þeirri starfsemi sem nauðsynlegt er að takmarka að umfangi og annarri starfsemi. Kaflinn um atvinnutengda starfsemi var unninn í samráði við stjórn þjóðgarðsins og voru drög að þeim kafla kynnt í samráðsgátt stjórnvalda.

Stjórn þjóðgarðsins samþykkti í júní 2019 atvinnustefnu Vatnajökulsþjóðgarðs sem var unnin með víðtæku samráði við hagsmunaaðila. Meðal yfirlýstra markmiða sem fram koma í atvinnustefnunni er að öll ákvarðanataka skuli vera gegnsæ, skilvirk og málefnaleg og að sanngjarn fyrirvari skuli hafður á öllum ákvörðunum sem líklegar eru til að snerta atvinnutengda hagsmuni.

Með þessum breytingum á reglugerðinni eru því skapaðar forsendur fyrir innleiðingu atvinnustefnunnar. Einnig skapast betri forsendur fyrir atvinnustarfsemi í þjóðgarðinum og grundvöllur styrkist fyrir stjórnsýslu Vatnajökulsþjóðgarðs um atvinnutengda starfsemi. Þjóðgarðurinn hefur samtímis unnið að gerð verkferla við gerð samninga og útgáfu þeirra leyfa sem kveðið er á um í reglugerðinni. Með þessum umbótum á regluverki þjóðgarðsins er því verið að skapa forsendur fyrir fjölbreytta og öfluga atvinnutengda starfsemi í tengslum við hann með vernd náttúru og sjálfbærni að leiðarljósi.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search