Smit af völdum Covid-19-veirunnar eru nú á uppleið hérlendis, eins og reyndar víða á Norðurlöndunum um þessar mundir. Í Danmörku, Svíþjóð og Noregi eru nú engar takmarkanir í gildi innanlands vegna veirunnar og almennt virðast nágrannalönd okkar leggja mikla áherslu á hvatningu til fólks um að láta bólusetja sig og viðhafa einstaklingsbundnar sóttvarnir. Mikilvægt sé að þau sem ekki hafa þegið bólusetningu geri það, og hvatt er til þess að ákveðnir hópar fari í bólusetningu með örvunarskömmtum, t.d. í Svíþjóð og Finnlandi.
Vegna þróunar smita hér á landi er full ástæða til þess að rifja upp það sem við kunnum svo vel. Það er, að viðhafa einstaklingsbundnar sóttvarnir; gæta hreinlætis og þvo hendur, fara í sýnatöku ef við finnum fyrir einkennum, fara sérstaklega varlega í kringum viðkvæma hópa og nota grímur í margmenni, þótt það sé ekki endilega skylda.
Það er einnig ástæða til þess að hvetja þau sem hafa fengið boð í örvunarbólusetningu til að þiggja hana, en reynslan sýnir að örvunarbólusetning þeirra sem eru 60 ára eða eldri eða með undirliggjandi sjúkdóma eykur verulega vörn þess hóps gegn alvarlegum einkennum vegna Covid-19-sýkingar. Heilsugæslan annast örvunarbólusetningar og munu öll sem eru 60 ára og eldri fá boð um slíka bólusetningu. Miðað er við að þau sem eru 70 ára og eldri fái örvunarskammt ef þrír mánuðir eru liðnir frá því að viðkomandi var fullbólusettur en fólk á aldrinum 60 til 70 ára að sex mánuðum liðnum.
Hér eftir sem hingað til er markmið stjórnvalda að að vernda líf og heilsu landsmanna en einnig verja heilbrigðiskerfið þannig að álag á heilbrigðisstofnanir landsins verði ekki of mikið. Til þess að efla viðnámsþrótt heilbrigðiskerfisins hefur verið gripið til ýmissa aðgerða. Þar má til dæmis nefna virkjun bakvarðasveitar heilbrigðisþjónustu að nýju, tímabundna fjölgun sjúkrarýma á heilbrigðisstofnunum í nágrenni höfuðborgarsvæðis, fjölgun biðrýma á hjúkrunarheimilum, styrkingu heimahjúkrunar, eflingu fjölbreyttrar þjónustu við aldraða í heimahúsum o.fl. Þessar og fleiri aðgerðir munu leiða til þess að innviðir heilbrigðiskerfisins verða enn betur í stakk búnir til að takast á við afleiðingar fjölgunar smita af völdum Covid-19.
Fyrr í október var gefið út að stjórnvöld hygðu á afléttingu allra takmarkana innanlands hinn 18. nóvember, með þeim fyrirvara að faraldurinn þróaðist ekki á verulega verri veg. Þróun faraldursins er metin frá degi til dags en staðan núna leiðir til þess að ólíklegt er að öllum takmörkunum verði aflétt 18. nóvember.
Ljóst er þó að öllu máli skiptir að við förum áfram varlega, pössum upp á okkur og fólkið í kringum okkur. Við getum það svo vel.
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra.