Search
Close this search box.

Förum varlega áfram

Deildu 

Smit af völd­um Covid-19-veirunn­ar eru nú á upp­leið hér­lend­is, eins og reynd­ar víða á Norður­lönd­un­um um þess­ar mund­ir. Í Dan­mörku, Svíþjóð og Nor­egi eru nú eng­ar tak­mark­an­ir í gildi inn­an­lands vegna veirunn­ar og al­mennt virðast ná­granna­lönd okk­ar leggja mikla áherslu á hvatn­ingu til fólks um að láta bólu­setja sig og viðhafa ein­stak­lings­bundn­ar sótt­varn­ir. Mik­il­vægt sé að þau sem ekki hafa þegið bólu­setn­ingu geri það, og hvatt er til þess að ákveðnir hóp­ar fari í bólu­setn­ingu með örvun­ar­skömmt­um, t.d. í Svíþjóð og Finn­landi.

Vegna þró­un­ar smita hér á landi er full ástæða til þess að rifja upp það sem við kunn­um svo vel. Það er, að viðhafa ein­stak­lings­bundn­ar sótt­varn­ir; gæta hrein­læt­is og þvo hend­ur, fara í sýna­töku ef við finn­um fyr­ir ein­kenn­um, fara sér­stak­lega var­lega í kring­um viðkvæma hópa og nota grím­ur í marg­menni, þótt það sé ekki endi­lega skylda.

Það er einnig ástæða til þess að hvetja þau sem hafa fengið boð í örvun­ar­bólu­setn­ingu til að þiggja hana, en reynsl­an sýn­ir að örvun­ar­bólu­setn­ing þeirra sem eru 60 ára eða eldri eða með und­ir­liggj­andi sjúk­dóma eyk­ur veru­lega vörn þess hóps gegn al­var­leg­um ein­kenn­um vegna Covid-19-sýk­ing­ar. Heilsu­gæsl­an ann­ast örvun­ar­bólu­setn­ing­ar og munu öll sem eru 60 ára og eldri fá boð um slíka bólu­setn­ingu. Miðað er við að þau sem eru 70 ára og eldri fái örvun­ar­skammt ef þrír mánuðir eru liðnir frá því að viðkom­andi var full­bólu­sett­ur en fólk á aldr­in­um 60 til 70 ára að sex mánuðum liðnum.

Hér eft­ir sem hingað til er mark­mið stjórn­valda að að vernda líf og heilsu lands­manna en einnig verja heil­brigðis­kerfið þannig að álag á heil­brigðis­stofn­an­ir lands­ins verði ekki of mikið. Til þess að efla viðnámsþrótt heil­brigðis­kerf­is­ins hef­ur verið gripið til ým­issa aðgerða. Þar má til dæm­is nefna virkj­un bakv­arðasveit­ar heil­brigðisþjón­ustu að nýju, tíma­bundna fjölg­un sjúkra­rýma á heil­brigðis­stofn­un­um í ná­grenni höfuðborg­ar­svæðis, fjölg­un biðrýma á hjúkr­un­ar­heim­il­um, styrk­ingu heima­hjúkr­un­ar, efl­ingu fjöl­breyttr­ar þjón­ustu við aldraða í heima­hús­um o.fl. Þess­ar og fleiri aðgerðir munu leiða til þess að innviðir heil­brigðis­kerf­is­ins verða enn bet­ur í stakk bún­ir til að tak­ast á við af­leiðing­ar fjölg­un­ar smita af völd­um Covid-19.

Fyrr í októ­ber var gefið út að stjórn­völd hygðu á aflétt­ingu allra tak­mark­ana inn­an­lands hinn 18. nóv­em­ber, með þeim fyr­ir­vara að far­ald­ur­inn þróaðist ekki á veru­lega verri veg. Þróun far­ald­urs­ins er met­in frá degi til dags en staðan núna leiðir til þess að ólík­legt er að öll­um tak­mörk­un­um verði aflétt 18. nóv­em­ber.

Ljóst er þó að öllu máli skipt­ir að við för­um áfram var­lega, pöss­um upp á okk­ur og fólkið í kring­um okk­ur. Við get­um það svo vel.

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search