Fyrsta Covid-19-smitið greindist hérlendis 28. febrúar síðastliðinn og faraldurinn náði hámarki hér í byrjun apríl. Okkur tókst að bæla faraldurinn niður með markvissum aðgerðum; sýnatökum, sóttkví, einangrun og þátttöku almennings í sóttvarnaaðgerðum. Þegar fyrsta áfanganum í baráttunni við Covid-19-sjúkdóminn lauk og örfá eða engin smit voru farin að greinast hérlendis á hverjum degi tók svo við sú áskorun að opna landið okkar fyrir ferðamönnum á öruggan hátt.
Um miðjan júní bættist valkostur um sýnatöku á landamærum við fyrir þá sem komu til landsins, þannig að öll sem það kjósa og uppfylla skilyrði gátu valið að gangast undir sýnatöku í stað þess að vera í sóttkví í 14 daga við komu til landsins, eins og öllum hafði verið skylt frá því í mars.
Að tillögu sóttvarnarlæknis ákvað ég hinn 13. júlí að þau sem búsett eru hér á landi eða eru íslenskir ríkisborgarar og hafa valið að fara í sýnatöku við komuna til landsins skyldu viðhafa heimkomusmitgát þar til niðurstöður úr síðari sýnatöku lægju fyrir. Sú ákvörðun var tekin til þess að minnka líkurnar á að röng niðurstaða á prófi á landamærum leiddi til hópsmita.
Samhliða því að taka sýni á landamærum höfum við verið að draga úr samkomutakmörkunum, hægt og rólega. Þegar leið á vorið voru reglur um fjöldatakmarkanir smám saman rýmkaðar, leik- og grunnskólar opnaðir á ný og íþrótta- og æskulýðsstarf hófst aftur.
Til þess að lágmarka áhættuna á því að faraldurinn næði sér á strik hér á landi ákvað ég hinn 3. júlí, að tillögu sóttvarnalæknis, að framlengja auglýsingu um takmörkun á samkomum frá 15. júní. Í gær, 28. júlí, ákvað ég svo að framlengja núgildandi auglýsingu um takmörkun á samkomum til 18. ágúst. Fjöldatakmörk á samkomum miðast því áfram við 500 manns og afgreiðslutími spilasala og veitingastaða með vínveitingaleyfi verður einnig óbreyttur og heimilt að hafa opið til 23.00.
Í ljósi þess að á undanförnum dögum hafa innflutt smit greinst hér í vaxandi mæli og dreifing á Covid-19-sjúkdómnum hefur orðið innanlands þurfum við að fara með gát varðandi tilslakanir á fjöldatakmörkum og afgreiðslutíma skemmti- og vínveitingastaða.
Við getum verið ánægð með þann árangur sem aðgerðir okkar hafa borið hingað til en við megum ekki gleyma því að fara varlega. Við þurfum að gæta sóttvarna vel áfram, og muna að tilgangurinn með þeim sóttvarnaaðgerðum sem enn eru í gildi er einmitt sá að hamla því að veiran nái sér aftur á strik í samfélaginu. Við þurfum að muna eftir okkar einstaklingsbundnu sóttvörnum, þvo hendur, spritta og geyma knúsið þar til síðar. Einnig að halda okkur heima ef við sýnum einkenni og vernda okkar viðkvæmasta fólk. Þannig viðhöldum við okkar góða árangri í baráttunni við veiruna áfram.