Þingsályktunartillaga Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun fyrir árin 2021 – 2025 var samþykkt á Alþingi í dag.
Tillagan markar þau tímamót að hún felur í sér fyrstu heildstæðu stefnuna um forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni hér á landi. Forvarnir verða samþættar kennslu í leik-, grunn- og framhaldsskólum og ráðist verður í umfangsmikla námsefnisgerð. Þá verður fræðslu um eðli og afleiðingar kynferðislegs og kynbundins ofbeldis og áreitni fyrir starfsfólk sem vinnur með börnum og ungmennum. Áætlunin á sér stoð í alþjóðlegum skuldbindingum Íslands, meðal annars um útrýmingu ofbeldis gegn konum og börnum. Framkvæmdinni verður fylgt eftir af forsætisráðuneytinu.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra:
„Samstaðan sem myndaðist á Alþingi í dag þegar tillagan var samþykkt er mikilvægur liður í að skapa samstöðu í samfélaginu. Okkar sameiginlega markmið er að útrýma kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi og áreitni og forvarnir eru sterkasta aflið í þeirri baráttu. Með þessi tökumst við á við þann veruleika sem #églíka eða #metoo-bylgjan afhjúpaði og byggjum inn í forvarnastefnuna skilning á eðli og afleiðingum kynferðislegs og kynbundnu ofbeldi og áreitni. Sá skilningur er forsenda þess að við getum upprætt ofbeldi.”