Search
Close this search box.

Framboð til ritara VG

Deildu 

Kæru félagar!

Mér hefur alltaf fundist það mikilvægt að við sem störfum í stjórnmálunum festum okkur ekki í einstöku hlutverki í of langan tíma. Eftir fjögur ár í embætti gjaldkera hreyfingarinnar hef ég hugsað mér til hreyfings og langar að prófa eitthvað nýtt. Ég hef því ákveðið að bjóða mig fram í embætti ritara á komandi landsfundi. Þrátt fyrir að það sé eitthvað nýtt fyrir mér á vettvangi hreyfingarinnar er ég ekki óreynd þegar kemur að ritarastarfinu, en ég kom fyrst inn í stjórn ungra vinstri grænna sem ritari árið 2011. Á árunum 2017-2019 gegndi ég einnig embætti ritara Landssambands ungmennafélaga en ég er formaður Landssambandsins í dag.

Ég hef viðamikla reynslu af félagsmálum en ég var lengi alþjóðafulltrúi ungra vinstri grænna og sat m.a í framkvæmdastjórn Ungmennaþings Norðurlandaráðs fyrir hönd ungliðahreyfinga vinstriflokka á Norðurlöndunum. Í dag er ég fyrsti varaþingmaður VG í Suðvestur kjördæmi og fyrir ári síðan varð ég fyrsti formaður nýstofnaðar Lýðræðis- og mannréttindanefndar Mosfellsbæjar. Ég var formaður svæðisfélagsins í bænum frá 2017-2018 og hef því ágæta reynslu af starfi VG á bæði þingi og sveitastjórnarstigi. Ég þekki vel innra starf hreyfingarinnar eftir að hafa tekið virkan þátt í því frá árinu 2011 og vil taka þátt í að efla það á komandi árum.

Ég vil halda áfram að leggja mitt að mörkum og vinna fyrir hreyfinguna á vettvangi stjórnar. Ég hlakka til að takast á við nýjar áskoranir í nýju embætti.

Sjáumst hress á landsfundi!

Una Hildardóttir

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search