Fyrirsögnin á grein í Morgunblaðinu 17. ágúst og orð í fleiri fjölmiðlum, í þá veru að rýrnun Grænlandsjökuls sé óafturkræf, benda til misskilnings. Túlka mætti ýmis þau orð undanfarið í þá veru að jökullinn sé á hraðleið til algjörrar eyðingar, jafnvel þótt tækist að snúa við hlýnun jarðar af mannavöldum. Vissulega getur jökullinn horfið en þá yrði meðalhiti jarðar að hafa hækkað um mörg stig í afar langan tíma. Elsti ís jökulsins, sem náðst hefur með borunum, er milli 200 og 300 þúsund ára. Á svo löngu tímabili hefur hressilega kólnað og hlýnað á víxl, en þá af náttúrunnar völdum. Í greininni sem vitnað er til (eftir Ian Howat og fleiri við Ríkisháskóla Ohio í tímaritinu Nature Communcations Earth and Environment Journal) skrifa vísindamennirnir þetta í lok útdráttar síns:
“Við berum saman breytingar á framskriði og uppbroti jökuljaðra (á jöklum sem fljóta upp og kelfa í sjó fram – aths. ATG) á áratugabili. Komumst að því að aukin eyðing jökulíssins stafar að langmestu leyti af uppbroti skriðjökltungnanna en miklu síður af ferlum sem eiga sér stað inni á meginjöklinum. Eyðingin herðir merkilega jafnt og þétt á sér; sem svarar 4-5% aukningu fyrir hvern kílómetra sem hver skriðjökull hopar. Við sýnum fram á að víðáttumikil hörfun skriðjökla á árunum 2000 til 2005 olli snöggri viðbótareyðingu og umskiptum til nýrrar, hvikular stöðu hvað massatap varðar sem héldi áfram jafnvel þótt yfirborðsbráðun minnkaði.”
Með þessu er átt við að ísmassi Grænlandsjökuls getur rýrnað áfram þrátt fyrir viðbót vegna aukinnar ákomu/minni bráðnunar í kólnandi veðurfari, fari svo að núverandi þróun snúist við. Það eru vissulega alvarlegar rannsóknarniðurstöður, m.a. vegna hækkunar sjávarborðs. Hvergi er þó fullyrt í greininni að heildar massatapið héldi áfram þar til jökullinn hyrfi. Grænlandsjökull er seigur, sýnir jarðsagan, gæti leitað jafnvægis á ný og jafnvel stækkað aftur. Vonandi gerist það sem fyrst. Vandinn vegna loftslagsbreytinga er mikill og hann vex á meðan ríki heims hika, það skortir á stamstöðu þeirra og mótvægisaðgerðir eru of linar, einkum ríkjanna sem mest áhrif hafa á loftslagsbreytingarnar.
Ari Trausti Guðmundsson, alþingis- og jarðvísindamaður